Öll ættum við að láta okkur varða umhverfismálin og ástand vistkerfisins. Dagskrá sunnudagskvöldið 9. mars kl. 18.00 í Neskirkju fjallar um þennan brýna málaflokk. Hún hefur tvíþættan tilgang: Annars vegar að miðla fræðslu og upplýsingum um stöðu umhverfismála á breiðu alþjóðlegu samhengi. Hins vegar að benda á jákvæða þætti og möguleika okkar til þess að snúa stöðunni við.
Fyrirlessarar eru reyndir á þessu sviði og hafa aflað sér víðtækrar þekkingar í vistmálum.
Sigurður Loftur Thorlacius, verkfræðingur hjá EFLU: Loftslagsmálin – Hvernig höldum við haus?
Sigurður Loftur hefur starfað um árabil með Ungum umhverfissinnum og beitt sér fyrir vitundarvakningu á þessu sviði. Hann ræðir stöðu mála, fer yfir áskoranir sem mæta heiminum í loftslagsmálum og ræðir leiðir um það hvernig við getum helst haldið í vonina.
Þórhildur Fjóla Kristjánsdóttir: Orku- og umhverfisverkfræðingur: Að viðhalda hvatningunni – reynslusaga
Þórhildur starfar nú meðal annars sem rannsóknarsérfræðingur og aðjúnkt við Háskóla Reykjavíkur. Hún hefur setið í stjórn Náttúruverndarsamtaka Noregs, verið framkvæmdastjóri hjá Grænni byggð og setið í stjórn Landverndar. Þórhildur fjallar um reynsluna af því að reyna að viðhalda hvatningunni yfir lengri tíma í að vinna við umhverfismál, sjálfboðavinnu og að tengjast sínum innri gildum.
Kristrún Anna Konráðsdóttir: Teymisþjálfi: Innri þróun í átt að betri heimi
Hvernig tengist okkar innri þróun, heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna? Kristrún Anna kynnir okkur fyrir hugmyndafræði Innri þróunarmarkmiðanna (e. Inner Development Goals) sem byggja á því að ytri umbreyting heimsins okkar krefjist einnig innri umbreytingar hjá okkur sjálfum.
Halldór Reynisson félagi í Aldini, eldri aðgerðarsinnum gegn loftslagsvá: Hvernig komumst við í gegnum þetta kuldahret? Hugleiðing og hugleiðsla um þolgæði og seiglu á tímum andstreymis í umhverfismálum.
Sr. Skúli S. Ólafsson sóknarprestur í Neskirkju leiðir dagskrána.