Magnea Árnadóttir
Nú það er og aldrei meir / Now it is and never more
Hvað tíminn er undarlegur. Hann er eins og sandur í stundaglasi. Í efra hólfinu er framtíðin, fortíðin er í því neðra. Mitt á milli er þrenging og þar streymir hann í gegn. Flaumurinn er það sem við köllum líðandi stundu, þetta núna sem er þó liðin tíð um leið og við höfum sleppt orðinu.
Sýning Hörpu Árnadóttur kallast á við þennan veruleika. Yfirskriftin er tvíræð. Annars vegar flytur hún sannindi um hverfulleika andartaksins. Fossinn fyrir ofan æskuheimili hennar í Ólafsvík er umgjörð þeirra minninga. Hún dregur hann upp með óljósum strokum, sem mistur hins liðna. Margur hugsuðurinn hefur einmitt líkt tímanum við straumþungan elf.
Titillinn er þó sjálfur minning úr fortíð. Séra Árni Bergur Sigurbjörnsson, faðir Hörpu, komst svona að orði þegar þau ræddu í síma þar sem hún undirbjó sýningu í Gautaborg og velti fyrir sér hvað hún ætti að nefna hana: Now it is and never more.
Listin er andleg og sýning Hörpu Árnadóttur fjallar um andann mitt í hinu hverfula. Þar sem hún fálmar eftir festu mætir hún hinu náttúrulega. Mitt í því stöðuga ferli þar sem andráin fæðist og hverfur, vaknar þörfin að koma kyrrð á hugann. Harpa mætir þeirri hvöt með vísan í náttúruna. Eitt verkanna, grænt að lit, heitir Vatnið. Bleikt verk nefnir hún Blómstur. Hún sækir í smiðju Davíðssálmanna. Glitrandi stjörnuhiminn kallar hún, Og alla vegu mína gjörþekkir þú (Sálm. 1939:3) og annað heitir Mig mun ekkert bresta (Sálm 23:1). Stærsta verkið horfir á heimaslóðir hennar í Arnarfirðinum. Það heitir Sól á firðinum. Þar vinnur listakonan með kalk sem unnið er af hafsbotninum. Fjörðurinn málar sig sjálfur.
Á sýningunni eru einnig minni verk sem byggja á krosssaumi á hör sem Magnea Þorkelsdóttir, amma listakonunnar, vann og afi hennar Sigurbjörn Einarsson biskup notaði sem hlíf utan um predikanir sínar. Þær eru ellefu talsins en ellefu var eftirlætistala afa hennar.
Sýningin er tileinkuð föður hennar og biskupshjónunum. Eitt verkanna er kveðjuræða Sigurbjörns sem hann flutti fyrir söfnuðinn á Breiðabólsstað á Skógarströnd, Snæfellsnesi. Það var á hvítasunnudag og í þeirri messu var téður Árni Bergur skírður.
Nú það er og aldrei meir. Framtíð verður fortíð. Loks tilheyrum við öll hinu liðina, erum fólk fortíðar með enga framtíð. Þá er sandurinn okkar allur í hólfinu neðra – og aldrei meir. Harpa Árnadóttir ávarpar þann veruleika. Og þar sem hún vekur til lífs liðin andartök setur hún fram, þó ekki nema örlítinn, fyrirvara við hið sístæða rennsli.
Texti: Skúli S. Ólafsson
Harpa Árnadóttir (1965) er fædd á Bíldudal en ólst upp í Ólafsvík á Snæfellsnesi. Harpa sneri sér að myndlist eftir að hafa lokið B.A.- gráðu í sögu og bókmenntum við Háskóla Íslands. Hún nam við Myndlista- og handíðaskólann og lagði síðan stund á framhaldsnám við Konsthögskolan Valand í Gautaborg. Verk Hörpu hafa verið keypt og sýnd af söfnum víða í Evrópu og þau birtust á fyrsta tvíæringnum í Gautaborg, á Momentum, sjötta norræna tvíæringnum í samtímalist í Moss í Noregi. Árið 1995 vann hún virtu teiknikeppnina Unga tecknare sem National Museum í Stokkhólmi efndi til fyrir unga myndlistarmenn. Þær teikningar eru nú í eigu Moderna Museet í Stokkhólmi. Vatnslitaverk hennar hafa unnið til Col Art-vatnslitaverðlaunanna hjá Nordiska Akvarellsalskapet. Málverk hennar hafa verið tilnefnd til forvals í Carnegie Art Award. Sumarið 2011 gaf bókaútgáfan Crymogea út safn texta og vatnslitaverka eftir Hörpu undir heitinu Júní. Nýleg einkasýning Hörpu er Skuggafall – Leiðin til ljóssins í Listval Gallerí vorið 2024 og Surface of memory í Nordatlantens Brygge í Kaupmannahöfn, 2022-23. Harpa býr og starfar á Bíldudal.