Sunnudaginn 5. febrúar kl. 12, að lokinni messu, sem hefst kl. 11.00, verður haldið listamannaspjall um sýninguna Skil | Skjól sem nú stendur yfir í safnaðarheimili Neskirkju. Þá mun Áslaug Íris Katrín Friðjónsdóttir listamaður segja frá verkum sínum á sýningunni, vinnuferli og efnistökum sýningarinnar ásamt Völu Pálsdóttur, sýningarstjóra sýningarinnar sem leiðir spjallið. Tímamót, kaflaskil, veðramót, vatnaskil, umskipti, straumhvörf og þáttaskil. Hverfulleiki. Á hverjum tíma eiga sér stað breytingar, stundum verulegar en oftar smáar. Áþreifanlegar en líka án vitundar okkar. Í afstæðu tímans skiptir lengd ekki máli heldur sú þekking og reynsla sem vex innra með okkur. Á sýningunni leitast Áslaug við myndgera þann snertipunt sem skilur að ólíka krafta, atburði eða upplifanir. Líf og dauða, svefn og vöku, inni og úti, hraða og stillu, fyrir og eftir. Lína er dregin í sandinn, steinar lagðir niður sem verða að grjóthleðslu, sem verður svo að vegg sem síðan myndar skjól. Skjól fyrir veðráttu, hraða, óreiðu, tíma og öllu öðru utanaðkomandi. Öruggt rými. Þar ríkir jafnvægi sem leyfir sárum að gróa, fræjum að spíra og rósir fá næði til að opnast ofurhægt – springa út og blómstra.