Á skírdegi minnist kristið fólks þess þegar Jesús átti sina hinstu máltíð með lærisveinum sínum.

Guðspjöllin segja frá mörgum máltíðum sem Jesús átti með vinum sínum og með ýmsum sem hann mætti. Hann var meira að segja ásakaður um að vera mathákur og vínsvelgur og að borða með fólki sem þótti ekki fínn pappír hjá trúarleiðtogum þess tíma eða jafnvel þjóðfélaginu í heild. Og af hverju skipti máli að hann sæti til borðs með tollheimtumönnum og bersyndugum, svo að vitnað sé í Biblíuna. Jú, af því að það að borða með einhverjum var vitnisburður um náið samband, um vináttu, traust. Og þegar Jesús borðaði með fólki sem var litið hornauga í samfélaginu þá var hann að segja: Ég met þig mikils, þú ert líka Guðs barn. Hann sat með þeim, braut brauð með þeim, og það að vera saman, borða saman, skipti máli.

Og þarna síðasta kvöldið var hann með lærisveinum sínum og gerði tvennt: Fyrst þvoði hann fætur þeirra – sem var jafnan hlutverk þjóna eða þeirra lægra settu. Með því vildi hann sína að sá sem er leiðtoginn á að vera þjónn allra. Og þaðan kemur reyndar nafnið skírdagur – að skíra er að þvo.

Hitt sem Jesús gerði var þetta – og hér vitna ég í orð Páls postula: Nóttina, sem Drottinn Jesús var svikinn, tók hann brauð, gerði þakkir, braut það og sagði: „Þetta er líkami minn. Gjörið þetta í mína minningu.“ Sömuleiðis tók hann og bikarinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: „Þessi bikar er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði. Gjörið þetta, svo oft sem þér drekkið, í mína minningu.“ (I. Kor. 11.23-25)

Og, fólkið sem fylgdi honum og trúði á hann, það gerðu þetta – frá upphafi. Karlar og konur  komu saman, borðuðu og brutu brauð saman í heimahúsum. (Post. 2:46) Og það er líklegt að þau hafi snemma – jafnvel frá upphafi – farið með orðin sem Páll vitnar í. Og þegar brauðið var brotið og vínið skenkt og þessi orð sögð þá fundu viðstaddir nálægð Krists – í raun voru þau að ganga inn í borðsamfélag með Kristi – þetta nána samfélag sem mér finnst túlkað svo fallega í helgisiðum sem algengir eru í systurkirkjum okkar þar sem presturinn segir: Brauðið sem við brjótum er samfélag um líkama Krists.

Og fólkið svarar: Þannig erum við, þó að við séum mörg, einn líkami, því að við fáum öll hlutdeild í sama brauði.

Seinna, þegar kristnin breiddist út, færðist athöfnin inn í kirkjuhúsin. Altarið hér í kirkjunni táknar borðið sem komið var saman við. Litlu obláturnar sem venjulega eru notaðar tákna brauðið – enda eru þær brauð, ósýrt brauð. Vínið er oft óáfengt. Þetta er ekki mikill matur, þetta er táknræn máltíð. En andlega næringin er sú sama. Og okkur býðst að mæta Jesú og vera hluti af samfélaginu við hann.

Eitt af því sem við söknum örugglega mörg á þessum tímum er að geta hitt vini og vinkonur, snert þau, borðað með þeim. Fundið ilminn af matnum, hlýjuna af manneskjunni, gleðina af samverunni. Sumir eru einir – í sóttkví eða jafnvel einangrun. Sumir búa einir og þurfa að halda sig til hlés. Og einveran er áþreifanleg í máltíðunum. Mundu, að þú ert aldrei einn, eða ein. Mundu að við hverja máltíð er Jesús nálægur þar sem honum er boðið inn. Hann sem segir: „Sjá, ég stend við dyrnar og kný á. Ef einhver heyrir raust mín og lýkur upp mun ég fara inn og neyta kvöldverðar með honum og hann með mér.“ (Op. 3:20)

Bæn

 Drottinn, þakka þér fyrir mat og næringu, fyrir vináttu og traust, fyrir trú og samfélag. Vertu nálægur okkur alla daga og alveg sérstaklega þeim sem eru ein á þessum dögum. Gefðu okkur kjark og úthald og kraft til að leggja okkar af mörkum svo að samfélagið allt sé heilt. Amen.