Þegar fólkið var í óbyggðum með Jesú og hungrið svarf að kom piltur og bauð það sem hann hafði. Hann taldi sig aflögufæran. Hvað með okkur?

Guðspjall dagsins:

Eftir þetta fór Jesús yfir um Galíleuvatn eða Tíberíasvatn. Mikill fjöldi manna fylgdi honum því þeir sáu þau tákn er hann gerði á sjúku fólki. Þá fór Jesús upp á fjallið og settist þar niður með lærisveinum sínum. Þetta var laust fyrir páskahátíð Gyðinga.

Jesús leit upp og sá að mikill mannfjöldi kom til hans. Hann segir þá við Filippus: „Hvar eigum við að kaupa brauð svo að þessir menn fái mat?“ En þetta sagði hann til að reyna hann því hann vissi sjálfur hvað hann ætlaði að gera.

 Filippus svaraði honum: „Brauð fyrir tvö hundruð denara nægðu þeim ekki svo að hver fengi lítið eitt.“ Annar lærisveinn hans, Andrés, bróðir Símonar Péturs, segir þá við hann:  „Hér er piltur sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska en hvað er það handa svo mörgum?“

Jesús sagði: „Látið fólkið setjast niður.“ Þarna var gras mikið. Menn settust nú niður, um fimm þúsund karlmenn að tölu. Nú tók Jesús brauðin, gerði þakkir og skipti þeim út til þeirra sem þar sátu og eins af fiskunum, svo mikið sem þeir vildu. Þegar fólkið var orðið mett segir Jesús við lærisveina sína: „Safnið saman leifunum svo ekkert spillist.“ Þeir söfnuðu þeim saman og fylltu tólf körfur með leifum byggbrauðanna fimm sem af gengu hjá þeim er neytt höfðu.

Þegar menn sáu táknið, sem hann gerði, sögðu þeir: „Þessi maður er sannarlega spámaðurinn sem koma skal í heiminn.“ Jesús vissi nú að þeir mundu koma og taka hann með valdi til að gera hann að konungi og vék því aftur upp til fjallsins einn síns liðs.

 

Ég hugsa að mörg okkar þekki vel þessa sögu um það þegar Jesú mettaði þúsundir með fimm byggbrauðum og tveimur fiskum. Þetta er ekki mikill matur. Ég hugsa að flestar fjölskyldur reyni að kaupa meira en það núna þegar svo margir eru að fylla á birgðir heimilisins og undirbúa sig fyrir mögulega sóttkví.

Hver guðspjallssaga er þannig að hana má túlka á fleiri en einn máta. Og þessi er til dæmis oft túlkuð í ljósi altarisgöngunnar – Jesús er brauð lífsins – hið lifandi brauð er niður steig frá himni og gefur heiminum líf. Þetta er ekki brauð sem við kaupum í næsta stórmarkaði – þetta er brauð með þá eiginleika að því meira sem þú tekur, því meira verður eftir.

Mig langar í dag að draga tvær setningar út úr þessari sögu og vekja athygli á þeim. Fyrri setningin er: Hér er piltur sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska

Og seinn setningin er: Þegar fólkið var orðið mett segir Jesús við lærisveina sína: „Safnið saman leifunum svo ekkert spillist.

Þetta eru undarlegir tímar. Samkomubann. Margir óttast um afkomu sína vegna áhrifa aðgerða til að koma í veg fyrir smit á efnahagskerfið. Og það birtist meðal annars í að við viljum tryggja að við höfum nóg.

Þegar fólkið var í óbyggðum með Jesú og hungrið svarf að kom piltur og bauð það sem hann hafði. Hann taldi sig aflögufæran. Ég held að nú sé líka sá tími kominn að við ættum sem teljum okkur aflögufær bjóðum fram það sem við getum, krafta okkar eða peninga, tíma okkar – til að veita liðsinni þeim sem þarfnast. Þar höfum við þegar séð marga leggja sitt af mörkum, til dæmis með sjálfboðavinnu við matardreifingu eða að svara í síma, eða þegar listafólk kom saman og söng fyrir íbúa Hrafnistu. Verum vakandi fyrir fólki í kringum okkur sem þarfnast símtals, þarfnast þess að einhver kaupi inn fyrir það. Getum við hjálpað þannig – eða á annan hátt.

Þegar fólkið var orðið mett – þegar allir höfðu fengið nóg – sagði Jesú lærisveinunum að safna saman leifunum svo að ekkert færi til spillis. Það var nefnilega meira til. Eigum við ekki að sameinast um að allir verði mettir í okkar samfélagi – bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Ég held að þá munum við upplifa sama undur og við þekkjum með brauð lífsins – það hefur þá eiginleika að því meira sem þú tekur, því meira verður eftir.

Við skulum biðja.

Drottinn, leið okkur í gegnum þessar óbyggðir veirunnar. Hjálpaðu okkur að horfa dag hvern á það hvað við getum gert og varðveita gleðina og kærleikann svo að þegar við mettumst sé nóg eftir.

Amen.