Sunnudaginn 22. maí kl. 17.00 mun Kór Neskirkju og Sinfóníuhljómsveit áhugamanna flytja Sálumessu Wolfgangs Amadeusar Mozarts. Flytjendur á tónleikunum ásamt Kór Neskirkju eru Hallveig Rúnarsdóttir sópran, Sigríður Ósk Kristjánsdóttir alt, Gissur Páll Gissurarson tenór og Fjölnir Ólafsson bassi. Stjórnandi er Oliver Kentish, aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar áhugamanna.

Sálumessa eða Requiem er síðasta verk sem Mozart vann að en það var ófullgert er hann lést árið 1791. Af öllum þeim fjölda sálumessa sem samdar voru á 18. öld nýtur verk Mozarts einnrar mestrar hylli. Að margra mati nær list tónskáldsins hápunkti sínum í verkinu og er samspil texta og tónlistar sérstaklega eftirtektarverð. Eftir andlát Mozarts fól ekkjan, Constanze, Franz Xaver Süssmayr samtarfsmanni og nemenda Mozarts að fullgera verkið

Í kaþólskri hefð eru haldnar sérstakar sálumessur (A Requiem eða Requiem Mass) til þess að minnast framliðinna og fagna því að sálir þeirra hafa öðlast hvíld.  Þekktasti hluti sálumessa, inngangssálmurinn, hefst á orðunum „Requiem aeternam dona eis, Domine“ (Veit þeim, Drottinn, eilífa hvíld) og þaðan er alþjóðlegt heiti sálumessa, requiem, komið.

Aðgangseyrir er kr. 3.000 í forsölu og eru miðar til sölu í safnaðarheimili Neskirkju, hjá kórfélögum og félögum í SÁ. Aðgangseyrir er kr. 3.500 við innganginn á tónleikardag í Neskirkju.