Á dánardegi Gabriel Fauré þann 4. nóvember næstkomandi mun Kór Neskirkju flytja verkin Requiem og Cantique de Jean Racine, Op. 11. Þá verða einnig flutt verkin Pie Jesu eftir L. Niedermeyer og Calme des nuits eftir C. Saint-Saëns. Flytjendur á tónleikunum ásamt Kór Neskirkju eru Hallveig Rúnarsdóttir sópran, Fjölnir Ólafsson barítón og á orgel leikur Björn Steinar Sólbergsson. Stjórnandi er Steingrímur Þórhallsson.

Tónleikarnir hefjast kl. 20.30 og standa í ríflega klukkustund. Aðgangseyrir er kr. 2.500 og eru miðar til sölu í safnaðarheimili Neskirkju, við innganginn á tónleikardag í Neskirkju og hjá kórfélögum

Gabriel Fauré (12. maí 1845- 4. nóvember 1924) samdi Requiem á árunum 1887 til 1890. Sálumessa Fauré er með þekktustu verkum hans og hefur notið ómældra vinsælda frá því hún var frumflutt árið 1888. Sjálfur sagði Fauré sálumessu sína einkennast frá upphafi til enda af trú á eilífa hvíld í dauðanum. Ýmsir samtímamenn Fauré höfðu orð á því að í sálumessu hans væri ekki að finna ótta við dauðann og sumir kölluðu hana vögguvísu um dauðann. Það er einmitt þannig sem hann sá dauðann, sem frelsun fremur en kvalarfulla reynslu. Gabriel Fauré lést 4. nóvember 1924 og var Sálumessan m.a. flutt við útför hans.

Í kaþólskri hefð eru haldnar sérstakar sálumessur (A Requiem eða Requiem Mass) til þess að minnast framliðinna og fagna því að sálir þeirra hafa öðlast hvíld. Þekktasti hluti sálumessa, inngangssálmurinn, hefst á orðunum „Requiem aeternam dona eis, Domine“ (Veit þeim, Drottinn, eilífa hvíld) og þaðan er alþjóðlegt heiti sálumessa, requiem, komið.