Á sunnudag var vel sótt fjölskylduguðsþjónusta í Neskirkju en Barnakór kirkjunnar leiddi söng undir stjórn Jóhönnu Halldórsdóttur og við undirleik Ara Agnarssonar. Ein fermingarmóðir, Inga Dóra Björnsdóttir, deildi með okkur upplifun sinni af stundinni í ljóði sem gladdi okkur starfsfólkið mjög.

Sem fermingarmamma ég mæti í kirkju.
sybbin og pirruð að ger’essa skyssu.
Aftast ég settist og opnaði símann
og vonaðist til þess að drepa nú tímann.

Í kirkjunni eru fjöldi manns
Því jólin þau koma nú innan skamms,
Litlar stelpur syngja jólalög í sparikjólunum
og presturinn les söguna um tröllið sem stal jólunum.

Lítið barn fær blessun og nafn
Hún er yngsti meðlimur í guðshirðarsafn.
Á kertum er tendrað og bænin er lesin
og heilagur andi hríslast um „fésin“

Ef messan er svona með gleði og söngvum
með hlátur og tiplandi börnum á göngum
af hverju fer ég þá sjaldan í messu
af hverju er mín barnstrú í klessu