Fyrsta sunnudag aðventu, 30. nóvember, kl. 12:00, í kjölfar messu sem hefst kl. 11:00,  verður opnuð sýning á verkefnum nemenda við Myndlistaskólann í Reykjavík í safnaðarheimili Neskirkju. Verkefnin eru unnin á yfirstandandi önn og er nemendahópurinn á öllum aldri.

Yngstu þátttakendurnir eru 6-9 ára nemendur á blönduðum myndlistarnámskeiðum hjá Brynhildi Þorgeirsdóttur og Ínu Salóme Hallgrímsdóttur. Verkefni þeirra fjallar um heim fuglanna og eru verkin unnin með blandaðri tækni, leir, teikningu og fundnum hlutum.

Hópur nemenda í vatnslitun sem hefur hist vikulega um árabil og unnið undir leiðsögn Hlífar Ásgrímsdóttur sýnir myndir sem eru unnar út frá náttúruformum og tilfinningum.

13-16 ára nemendur í teikningu hjá Hildigunni Birgisdóttur sýna innhverfar teikningar sem þau unnu í framhaldi af umræðum um sjálfið. Teikningarnar eru leikandi og varpa ljósi á okkar innri mann.

Guðmundur Stefán Guðmundsson hefur verið nemandi við skólann um margra ára bil. Hann er þátttakandi í vinnustofu fyrir fólk með þroskahömlun sem Kristinn Guðbrandur Harðarson, Margrét M. Norðdahl og Gerður Leifsdóttir leiða en áður hefur hann lokið eins árs undirbúningsnámi við skólann. Myndirnar sem Guðmundur sýnir eru unnar með vatnslit. Yfirbragð þeirra er óhlutbundið en þær spretta samt úr myndheimi þar sem landslag, dýr, atriði úr kvikmyndum og fleira skemmtilegt kemur við sögu.

Sýningunni lýkur 25. janúar. Safnaðarheimilið er opið milli kl 9 og 16 virka daga. Gengið er inn frá bílastæði sunnan við aðalinngang