Sunnudaginn 31. ágúst verður opnuð í safnaðarheimili Neskirkju sýning á
verkum listakonunnar Ragnhildar Stefánsdóttur.

Á sýningunni, sem ber yfirskriftina Skynjun, eru þrjú verk: Vox populi sem
er hugleiðing um tunguna, Svo á himni sem á jörðu, um augað og Innút, um
þefskynið.
Ragnhildur sem einnig er hómópati er þekkt fyrir að nota ýmsa líkamshluta
á óvæntan hátt í verkum sínum en líkaminn er sá efniviður sem hún vinnur
helst með. Afstaða hómópatans skín sterkt í gegn en verk hennar birta
gjarnan líkama sem speglar tilfinningar/anda og öfugt.

Um verkið Svo á jörðu sem á himni segir listakonan:

Augun eru hluti af meltingarkerfi hugans. Líkaminn er flókið fyrirbæri,
margræður og margskiptur. Ég vinn með tilfinningar og samband þess
efnislega og huglæga í manninum – tilfinningalega vitsmuni. Líkaminn er
form reynslunnar. Hann er tilfinningalegt, vitsmunalegt og andlegt form,
jafnt sem líkamsform. Efnislíkaminn á sér samsvörun í huglæga líkamanum.
Svo á himni sem á jörðu.

Ragnhildur Stefánsdóttir lauk námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands
árið 1981 og stundaði síðan framhaldsnám í Bandríkjunum, fyrst í
Minneapolis College of Art and Design en síðar í
Carnegie-Mellon University í Pennsylvaníu. Hún hefur haldið allmargar
einkasýningar og verið mjög virk á vettvangi samsýninga.