Miðvikudagskvöldið 16. október kl. 20.30 bjóða Kór Neskirkju og Stúlknakór Neskirkju öllum á tónleika þar sem íslensk dægurtónlist verður í aðalhlutverki. Enginn aðgangseyrir er á tónleikana og eru allir hjartanlega velkomnir. Við flytum m.a. Vegbúann og I think of Angels eftir KK, Heyr mína bæn eftir Óla Gauk og Leiðina okkar allra eftir Þorstein Einarsson og hefur Steingrímur kórstjóri útsett þessi lög fyrir kórana. Þá flytjum við Tvær stjörnur eftir Megas og Bæn einstæðingsins eftir Ómar Ragnarsson í útsetningum Gunnars Gunnarssonar. Fjölmörg önnur kunnugleg lög eru á efnisskránni og mætti t.d. nefna Gullvagninn og Við Reykjavíkurtjörn. Fáein erlend lög fá að fljóta með m.a. Hallelúja eftir Cohen. Ragnhildur D. Þórhallsdóttir, sópran og félagi í Kór Neskirkju, mun auk þess flytja nokkur dægurlög sem voru vinsæl um miðbik síðustu aldar í flutningi Öddu Örnólfs, mömmu Ragnhildar. Kynnir á tónleikunum verður Sigurþór Heimisson og stjórnandi er Steingrímur Þórhallsson.