Sunnudaginn 2. september verður opnuð í safnaðarheimili Neskirkju sýning á innsetningu Haraldar Jónssonar myndlistarmanns sem hann hefur unnið sérstaklega inn í rými kirkjunnar.

Verkið sem Haraldur sýnir kallast Himni, en uppspretta þess er næsta nágrenni okkar sem og texti úr Biblíunni. Um er að ræða Jobsbók en í verkinu er kafli úr henni er stafaður í réttri röð af sóknarbörnum á ýmsum aldursskeiðum.

Haraldur Jónsson stundaði nám við Myndlista-og handíðaskólann, Kunstakademíuna í Düsseldorf í Vestur-Þýskalandi og Institut des Hautes Etudes en Arts Plastiques í París, Frakklandi. Haraldur er myndhöggvari og nálgast bæði efni og umhverfi með ýmsum miðlum sem hann teflir gjarnan saman á óvæntan hátt. Líkaminn, margbrotin skynjun hans og samhengi eru honum einkar hugleikin.

Nokkur orð fyrir myndlistarsýningu Haraldar Jónssonar, Himni, í Safnaðarheimili Neskirkju haustið 2012

Himneskur Guð kennir mönnum að gæta í vöku jafnvægis og hófs í leik og starfi. Þá undanskilur skaparinn svefninn, enda ríkir þar jafnvægi sem hugurinn vigtar við morgunstund hvers nýs dags: svefnhamurinn er vinna, nauðsynleg fyrir líkamann til að fá að starfa í friði fyrir vökulu auga eigandans og vitundinni, jafnframt hvíld frá þessum augum eða vitund, og draumarnir eru leikurinn. Stundum dregur sá leikur mann eftir breiðgötum, einstigum og hringtorgum martraðanna, oft leikur hann sér að manni eins og að bolta; athafnafrelsi draumanna er endalaust eða því sem næst, en svefninn ber líka með sér svipmót dauðans – að sögn Don Kíkóta er það eini gallinn hvað sá sofandi líkist líki, því annars blessaði riddarinn þann mann sem fann upp svefninn, staðinn þar sem hann hræddist aldrei eða vonaði neitt.

Jarðneskir Guðir, þeir sem leyfa sér að setjast í þannig hásæti, leitast við að gefa út reglur um þetta jafnvægi vökustundanna, á milli leiks og starfs, og þeir leitast við að taka toll af hvoru tveggja og eigna sér þetta rými, leigja fólk til starfa og leigja út leikvelli gegn þóknun. Fyrirkomulagið þarf ekki útskýringar við, það er vort daglega brauð.

Guð treystir manneskjunni fyrir tímanum hér á jörðu, hún þarf ekki fleiri drottnara en sjálfa sig, ef hún er látin í friði finnur hún jafnvægi starfs og leiks; sem lýtur svipuðum lögmálum og andardrátturinn: að anda inn og anda út, starfa og leika, vinna og leika sér. Þegar martraðirnar gera sig heimankomnar og fara að minna á framhaldssjónvarpsseríu sem tekur sér ekki vikufrí milli þátta, gefa ekki manneskjunni grið, nótt eftir nótt, staldrar hún við, reynir að stilla sig, gætir að sér, spyr sig hvort eitthvað gangi að.

Eins þegar dagarnir verða martraðarkenndir, þá er ágætt að staldra við, skoða sinn gang, eins og úrsmiður skoðar gangverk, færa sig úr stað, komast í önnur spor eða mót sem léttir svefnleikinn.

Jarðneskir Guðir taka sinn toll, eins og sagði, og hafa ríka þörf fyrir að skipuleggja leikina sem mennirnir njóta að starfsdegi loknum. En leikurinn þarf ekki fjötra og traust er hreinasti gallagripur þegar fyrirbærið er sett á sölutorg, á markað. Traust hverfur ekki eins og pappír eða járn, það sýndi Job, traust er hvorki hægt að kaupa eða leigja.

Á sýningu Haraldar Jónssonar myndlistarmanns má upplifa leik sem einnig er starf, starf sem einnig er leikur, say no more, segi ekki meir.

Gjörið svo vel góðir áhorfendur, kærustu þakkir, Haraldur.

Kristín Ómarsdóttir