Hin árlega guðsþjónusta Ísfirðingafélagsins í Reykjavík verður haldin sunnudaginn 20. maí kl. 14.00. Guðsþjónusta félagsins hefur undanfarin ár verið sungin í Neskirkju, í góðu samstarfi við sóknarprestinn ísfirska, sr. Örn Bárð Jónsson og verður engin breyting á í ár. Þá er Ísfirðingafélaginu í Reykjavík mikill heiður að því að Ísfirðingurinn sr. Agnes M. Sigurðardóttir, nýkjörinn biskup Íslands, mun taka þátt í messugjörðinni. Ísfirðingafélagið hvetur því brottflutta Ísfirðinga sem og Vestfirðinga alla að fagna sumri, gleðjast saman og fjölmenna í Ísfirðingamessu í Neskirkju. Kirkjukór Ísfirðingafélagsins mun syngja við messuna.

Guðsþjónusta á vegum Ísfirðingafélagsins í Reykjavík hefur fyrir margt löngu skipað fastan sess í starfi Ísfirðingafélagsins og hefur þátttaka í guðsþjónustunni undanfarin ár verið góð. Að messu lokinni er að vanda boðið upp á kaffi og meðlæti í safnaðarheimili Neskirkju. Ísfirðingar nær og fjær eru hvattir til að fjölmenna í messu, taka með vini og vandamenn og njóta þess að hittast á góðum degi með góðu fólki. Allir eru að sjálfsögðu velkomnir.