Eru pálmar skylda eða er kannski hægt að nota birki? Jú, nú er búið saga og klippa birki af trjánum við Neskirkju. Birkigreinar verða síðan notaðar við hátíðina næsta sunnudag, 17. apríl. Í tilefni 54 ára afmælis Neskirkju verður efnt til kirkjugöngu í Vesturbænum kl. 10,30. Fjölmennið, takið börnin með og vitjið gleðinnar í kirkjunni sem er sérhönnuð fyrir fögnuð.

Kirkjugangan verður raunar frá tveimur stöðum í Nesprestakalli. Önnur gangan hefst við Þormóðsstaðavör, við enda vesturflugbrautar Reykjavíkurflugvallar (leiðin í Skerjafjörð) og hin verður farin frá Grandaskóla. Engir pálmar verða til reiðu en kirkjubirki verður úthlutað! Bumbur verða barðar á leiðinni og sungið líka. Reikna má með að gangan taki um tuttugu mínútur.

Afmælisdagur kirkju er vígsludagur hennar og jafnan kallaður kirkjudagur. Neskirkja var vígð á pálmasunnudegi árið 1957. Afmæli eru hátíðartilefni. Hátíðamessa verður í kirkjunni kl. 11 og veitingar verða á borðum í safnaðarheimilinu eftir messu. Meistarinn hélt inn í Jerúsalem á pálmasunnudegi. Við göngum til kirkju og til fundar við Jesú Krist. Allir eru velkomnir í Neskirkju.