Á föstudaginn verður síðasta saltfiskhádegið á yfirstandandi föstu í safnaðarheimili Neskirkju. Föstudagssaltfiskur hefur verið fastur liður á föstu í nokkur ár. Í boði eru suður-evrópskir saltfiskréttir en um aldir hafa Íslendingar framleitt saltfisk á Evrópumarkað, sem einkum var seldur til kaþólsku landanna. Þar hefur fastan djúpar rætur og menn minnka kjötneyslu í kjölfar kjötkveðjuhátíðarinnar – carnival. Tengsl föstu og saltfisks, viðskipta og trúar eiga sér því langa sögu.

Myndlistarmaðurinn Guðrún Einarsdóttir verður sérstakur gestur í hádeginu á föstudaginn en verk eftir hana prýða nú safnaðarheimili kirkjunnar. Guðrún er á meðal fremstu listamanna landsins. Hún vinnur einkum málverk sem endurspegla sérstæða sýn á náttúruna og þrautseiga könnun listamannsins á eðli og eiginleikum efniviðarins sem hún notar. Guðrún hefur haldið um þrjátíu einkasýningar og tekið þátt í samsýningum víða um heim. Verk hennar eru í eigu opinberra safna og einkasafna bæði hér heima og erlendis. Listasjóður Dungal og bókaútgáfan Crymogea gáfu út bók um listakonuna árið 2008.

Máltíðin verður seld á kr. 1.500 en af þeirri upphæð mun Neskirkja láta hluta renna til Hjálparstarfs kirkjunnar.