Neyðin kennir kirkjum að höggva eigin tré. Í ár verða jólatrén í safnaðarheimilinu og í kór Neskirkju úr eigin garði. Ljómandi falleg tré voru felld í vikunni í grenilundinum austan kirkjunnar. Reyndar þarf að fella fleiri tré, lundurinn þarfnast grisjunar. Fjárekla Neskirkju knýr á öfluga fjármálastjórn og góða fjárnýtingu. Svo er nú alltaf skemmtilegt að nota eigin tré. Þau eru líka þakin könglum sem eru skraut og vonartákn. Eftir jól verða trén síðan nýtt í föndur og kannski verða gerðir úr þeim gripir til gjafa og gleði. Neskirkjutré mega því þjóna sem gleðigjafar með ýmsu móti. Menn eiga að vera ábyrgir ráðsmenn og trén mega líka vænta framhaldslífs. Jólatrén fara í hús á aðventu en vilja ekki vera ein. Kirkjan er opin og kallar fólk til tíða á aðventu, jólum og nýju ári. Velkomin.