Ingibjörg Rannveig Guðmundsdóttir formaður sóknarnefndar Neskirkju verður jarðsungin 3. desember 2010 kl. 13 frá Neskirkju. Ingibjörg kom víða við á starfsævi sinni. Hún var formaður Landssambands íslenskra verslunarmanna í mörg ár og til æviloka, varaforseti ASÍ um árabil og í skólastjórn Verslunarskóla Íslands. Hún var heilsteypt manneskja og trú í störfum sínum. Samstarfsfólk Neskirkju kveður hana með þökk og af djúpri virðingu.

Báðir prestar Neskirkju annast útförina, Sigurður Árni Þórðarson og Örn Bárður Jónsson. Steingrímur Þórhallsson, leikur á orgelið við athöfnina sjálfa en Magnús Ragnarsson, á  undan athöfn. Kór Neskirkju mun syngja ásamt Kammerkór Neskirkju. Standandi erfidrykkja verður í safnaðarheimili kirkjunnar að athöfn lokinni í boði Verslunarmannafélags Reykjavíkur en sæti verða handa þeim sem þurfa. Búist er við fjölmenni enda var Ingibjörg vinsæl kona og átti margvísleg tengsl í lífi og starfi.

Neskirkja tekur um 500 manns í sæti í kirkjuskipi og kapellu. Að auki verður bætt við um 200 sætum í safnaðarheimili kirkjunnar en þar verður athöfninni varpað upp á tjald.