Hvað borðaði biblíufólk? Í Neskirkju er súpa á hverjum virkum degi fyrir gesti og gangandi. En föstudaginn 22. október verður eldaður kjúklingaréttur Heródesar. Biblíumáltíðirnar eru í safnaðheimilinu í hádeginu á föstudögum. Máltíðir hefjast kl. 12.

Fyrir viku var fíkjulamb á boðstólum í Neskirkju. Það er réttur sem gæti líkst þeim sem Rebekka og Jakob elduðu fyrir hinn aldraða Ísak, föður Esaú og Jakobs. Frá baráttu baráttu tvíburanna um blessun er sagt frá í 1. Mósebók 25 og áfram.

Uppskriftin sem notuð var í Neskirkju er auðveld og hægt að nota hana í heimahúsum. Hún er meðfylgjandi.

Freisting Ísaks: Fíkjulamb Jakobs og Rebekku
Miðað við sex

Lambakjöt 1,2 kg, fitusnyrt, skorið í ferninga eða sentimeter þykkar sneiðar.
Brúnað í ólívuolíu,
saltað og piprað að smekk
1 tsk. tímían og ½ tsk. rósmarín eða óreganó dreift yfir
4-6 hvítlauksrif, smáskorin sett út í og leyft að krauma með í a.m.k. þrjár mínútur.
1 bolli af vatni yfir
400 ml. rauðvín (eða rauðvínslíki sem fæst t.d. í Melabúðinni)
4 msk saxað kóríander (helst ferskt) annars 2 tsk. kóríander
2-3 tsk gott sinnep (t.d. Dijon)
2 tsk. kúmmín
300 gr. gráfíkjur (helst góðar lífrænar fíkjur) skipt í tvennt (nota má apríkósur í staðinn)

Látið síðan malla í 20 mínútur.
Ef þarf má bæta meira vatni og rauðvíni. Þetta á að vera pottréttur og má ekki sjóða alveg niður, sósan á að vera með.

Bera fram með kúskús og salati, t.d. spínat, ristaðar furuhnetur, appelsínur smátt skornar og rúsínur. Ofurlítil olía og appelsínusafi notuð sem salatolía.

Og svo er borðbæn við hæfi t.d. hin biblíulega:

Þakkið Drottni því  hann er góður, því  miskunn hans varir eilífu. Amen og gerið svo vel.

Sigurður Árni Þórðarson