Nemendur í Listaháskólanum gerðu tillögur um skrúða fyrir Neskirkju. Í dag hlutu viðurkenningar þau Anton Kaldal Agústsson, Birna Einarsdóttir og Borghildur Ína Sölvadóttir. Verkefnið var samvinnuverkefni kirkjunnar og skólans.

Nemendur í Listaháskólanum gerðu tillögur um skrúða fyrir Neskirkju. Í dag hlutu viðurkenningar þau Anton Kaldal Agústsson, Birna Einarsdóttir og Borghildur Ína Sölvadóttir.
Verkefnið var samvinnuverkefni kirkjunnar og skólans. Dr. Pétur Pétursson og prestar kirkjunnar héldu fyrirlestra um kirkjulist. Lína Atladóttir var með þeim í dómnefnd. Fyrir hönd skólans stýrði verkinu Linda Björg Árnadóttir, fagstjóri í fatahönnun. Hér að neðan er lýsing verkefnsins.

Hönnun messuklæða fyrir Neskirkju

Verkefnið:

„Starfshópur Neskirkju um hökla“ fer þess á leit við hönnunardeild og grafíkdeild Listaháskóla Íslands að nemendur deildanna geri tillögur að höklum fyrir kirkjuna, stólum, altarisklæðum og veifum á lektara og prédikunarstól. Starfshópur um hökla á vegum sóknarnefndar Neskirkju heldur utan um verkefnið. Hann skipa:

Lína G. Atladóttir,
Pétur Pétursson,,
Sigurður Árni Þórðarson og
Örn Bárður Jónsson, sem fer fyrir hópnum.

„Starfshópur Neskirkju um hökla“ tekur endanlega ákvörðun um val á tillögum og áskilur sér rétt til að hafna öllum ef svo ber undir.

Nefndin áskilur sér rétt til að leita álits utanaðkomandi fagmanna.

Sú tillaga sem verður hlutskörpust eða þær, sé um fleiri en eina að ræða, verður þróuð í samvinnu vinnuhópsins og nemenda og þeir jafnvel fengnir til að fullvinna verkið og skila höklunum, stólunum og öðrum klæðum fullunnum. Verðlaun fyrir bestu tillöguna að áliti nefndarinnar verða kr. 50.000 og fyrir 2. og 3. tillögu 25.000 fyrir hvora.
Nefndin er ekki bundin af því að nemendur fullvinni klæðin og áskilur sér rétt til að leita til annarra um úrvinnslu hugmyndanna.

Þess er vænst að nemendur LHÍ vinni verkefnið á vordögum 2008 undir stjórn Lindu Bjargar Árnadóttur, fagstjóra. Nemendur leiti sér upplýsinga um sögu hökla og hönnun, táknmál, efnisval og liti. Einnig skulu þeir skoða sögu þess svæðis þar sem Neskirkja stendur og prestakallsins sem er nánar skilgreind hér á vefsíðu kirkjunnar (http://www.neskirkja.is/?neskirkja/sokn). Hver er menningar- og atvinnusaga þessa svæðis? Eru þar fólgnar upplýsingar sem gefið geta hugmyndir um tengingar og úrvinnslu tákna.

Klæðin:
Um er að ræða 4 hökla og 4 stólur í eftirtöldum litum og svo sett í hverjum lit sem inniheldur eitt altarisklæði, eina veifu á prédikunarstól og eina á lektara:

hvítum (eða gylltum),
rauðum,
fjólubláum (eða bláum) og
grænum.

Um liti kirkjuársins:

Litir kirkjuársins eru: Hvítur, rauður, fjólublár, grænn og svartur. Einar Sigurbjörnsson, prófessor fjallar um litina í bók sinni um Embættisgjörð. Hann skrifar: Innocentius páfi III (1198-1216) setti reglur um liti til viðmiðunar og hefur þeim verið fylgt innan rómversku kirkjunnar síðan. Fyrir áhrif lítúrgísku hreyfingarinnar á síðustu öld, hófu lútherskar kirkjur sem höfðu haldið skrúðanum þessar reglur til vegs á ný á seinustu öld.

Um einstaka liti segir hann:

Hvítur er litur fagnaðar og hreinleika og þess vegna litur stórhátíðanna, jóla og páska og sunnudaganna eftir páska.

Rauður er litur blóðs og elds. Því er hann litur hátíðar heilags anda, hvítasunnunnar. Rauður er líka litur píslarvottanna og því litur á minningardögum þeirra.

Fjólublár er litur iðrunar og yfirbótar og því notaður á föstunni, bæði lönguföstu og jólaföstu eða aðventu.

Grænn litur táknar von og vöxt og er litur sunnudaga eftir þrettánda og sunnudaganna eftir þrenningarhátíð, trinitatis.

Höklarnir skulu taka mið af kirkjulegri hefð en um aldir hafa kirkjur hér á landi og víða um heim lagt upp úr því að eiga fagra messuskrúða úr góðum og vönduðum efnum.

Efni í messuskrúða þarf að vera gott og úr náttúrulegum efnum. Ef brugðið verður frá þeirri hefð þurfa að liggja að baki mikilvægar ástæður.

Við hönnun skal taka mið af notkunargild, að höklarnir séu léttir og að ekki verði of heitt að klæðast þeim við stofuhita og jafnvel enn meiri hita við fjölmennar athafnir.
Höklar og stólur þurfa að fara vel hvort sem er yfir hempu og rykkilín eða ölbu.

Neskirkja
Neskirkja er 50 ára gamalt guðshús sem stendur á Melunum í Reykjavík, nánar til tekið við Hagatorg. Nafn kirkjunnar vísar til hins forna prestakalls í Nesi á Seltjarnarnesi en þegar prestakallið var stofnað árið 1940 náði það yfir Vesturbæinn, sunnar Hringbrautar eins og nú, en einnig yfir Seltjarnarnes og reyndar að austanverðu allt suður í Kópavog. Núverandi mörk prestakallsins eru þessi: Nesprestakall nær yfir byggðina í Vesturbænum sunnan Hringbrautar, frá Skerjafirði sem tilheyrir því og að mörkum Seltjarnarness. Íbúar í prestakallinu eru um 11 þúsund og er það hið næstfjölmennasta í Reykjavík.

Móðurkirkja núverandi Neskirkju er Dómkirkjan í Reykjavík og því er mikilvægt að skoða sögu þeirra hökla sem þar hafa verið notaðir og hannaði nú á síðari árum.

Neskirkja hefur verið kölluð fyrsta nútímakirkja landsins enda sú sem fyrst víkur frá hefðinni. Ágúst Pálsson, arkitekt, teiknaði Neskirkju. Útlit kirkjunnar er óhefðbundið, kirkjuskipið ekki symmetrískt og kross er á kórvegg í stað altarismyndar. Hún er einföld og án alls skrauts. Formin ráða mestu og ljósflæði. Inngangur í kirkjuna er ekki á vesturgafli mót altari eins og algengast er heldur á norðurhlið þannig að leiðin að altarinu liggur í vinkil. Kirkjunni var breytt að innan árið 1999 þegar nýtt orgel var sett þar upp. Kirkjan er friðuð að ytra byrði vegna stöðu sinnar sem fyrsta nútímakirkjan og sem fagurt dæmi um góðan arkitektúr. Nýtt safnaðarheimili var byggt á lóð kirkjunnar og tengt við kirkjuna með glergangi sem kemur á vesturgafl hennar. Nýja húsið var tekið í notkun árið 2004.

Nánar um sögu kirkjunnar á heimasíðu kirkjunnar.