Áföll hafa dunið yfir samfélag okkar. Þegar að kreppir þörfnumst við næðis, til að jafna okkur og átta. Kirkjan starfar í hverfinu og hún er fyrir mannlífið allt. Í kirkjunni er staður fyrir bænir, fyrir samræður, fundi, hlátur og grát. Hér er opið bréf okkar í Neskirkju til fólksins í hverfinu.
Áföll hafa dunið yfir samfélag okkar. Þegar að kreppir þörfnumst við næðis, til að jafna okkur og átta. Kirkjan starfar í hverfinu og hún er fyrir mannlífið allt. Í kirkjunni er staður fyrir bænir, fyrir samræður, fundi, hlátur og grát.

Virku dagana er á Torgi kirkjunnar hægt að kaupa kaffi allan daginn og mat í hádeginu. Allir eru velkomnir. Barnastarfið heldur áfram og þjónar unga fólkinu, ótta þess og spurningum. Prestarnir eru með viðtalstíma. Opin hús og fræðslusamverur þjóna mörgum.

Stækkum faðminn gagnvart fólki. Umgöngumst fólk af fegurð og nærgætni því mun fleiri eru skeknir en við vitum af og getum gert okkur grein fyrir. Fólk segir frá þegar það missir ástvini, en segir mun síður frá þegar það tapar ævisparnaðinum. Svo bætast við áhyggjur af vinnu og afkomu fjölskyldna og ástvina. Sársauki getur verið margþættur og oft ósegjanlegur.

Við áfall skapast krossgötur og næði fyrir nýjar hugmyndir, sem geta orðið til góðs og jafnvel breytt góðum aðstæðum, góðu lífi fyrir áfallið að betra lífi eftir. Þegar svo er unnið er brugðist rétt við.

Endurmetum stefnuna, iðkum lífið, gerum það sem gleður okkur og fólkið okkar. Kirkjan er þín og opin þér á stundum áhyggna sem og gleði.

Prestar og starfsfólk Neskirkju