Við biðjum fyrir öllum sem þjást vegna styrjalda og náttúruhamfara, kynþáttahaturs, ranglætis – ofbeldis og kúgunar í öllum hennar andstyggilegum og lævísu myndum. Almenna kirkjubæn sunnudags í föstuinngangi, 3. febrúar, samdi og flutti dr. Pétur Pétursson. Bænin er birt hér á vef Neskirkju.

Drottinn Guð.

Við heiðrum þig og tignum heilagt nafn þitt.

Við biðjum þig, – taktu á móti bænum okkar.

Söfnuður þinn lýtur þér og þakkar fyrir, allt sem hann hefur þegið úr hendi þinni.

Fyrir Jesú Krist, Drottin vorn.

-Drottinn heyr vora bæn.

Við biðjum fyrir kirkju þinni um víða veröld og alla þá sem breiða út ríki þitt. Blessaðu kirkjuna og alla kristna söfnuði í landinu okkar, biskupa, presta, djákna og starfsfólk safnaðana. Blessaðu og styrktu þá sem hafa tekið að sér kristilegt starf með börnum og unglingum.

Fyrir Jesú Krist, Drottin vorn.

-Drottinn heyr vona bæn.

Við felum þér íslenska þjóð og biðjum um leiðsögn fyrir þá sem gegna opinberum trúnaðarstörfum, fyrir forsetanum, ríkisstjórninni, alþingi, dómstólum, borgarstjóranum og sveitarstjórnum. Lát frið og einingu ríkja, – sáttfýsi og skilning.

Fyrir Jesú Krist, Drottin vorn.

-Drottinn heyr vora bæn.

Við biðjum fyrir öllum sem þjást vegna styrjalda og náttúruhamfara, kynþáttahaturs, ranglætis – ofbeldis og kúgunar í öllum hennar andstyggilegum og lævísu myndum.

Gefðu ráðamönnum, fjármálamönnum og fólki í áhrifastöðum hreinskilni og mannkærleika og vek þau til vitundar um þjáningu og þarfir annarra.

Fyrir Jesú Krist, Drottin vorn

-Drottinn heyr vora bæn.

Við felum þér, Drottinn, öll þau önnur bænarefni sem hvíla á okkur og nefnum þau hvert og eitt í hljóði. ……

Fyrir Jesú Krist, Drottin vorn.

-Drottinn heyr vora bæn.

Bænin í Neskirkju 3. febrúar, 2008, af dr. Pétri Péturssyni.