Í Neskirkju er blómlegt unglingastarf en kirkjan er ásamt Dómkirkju á leiðinni til Hvammstanga á landsmót æskulýðsfélaga í Þjóðkirkjunni. Þar koma til með að hittast mörg hundruð ungmenni af öllu landinu til að eiga góða stund saman og fræðast um Biblíuna og kristna trú. Á vegum NeDó unglingastarfs Nes- og Dómkirkju fara tæplega 20 ungmenni á aldrinum 14-17 ára auk leiðtoga. Yfirskrift mótsins í ár er Ljós á vegum mínum og vísar í Davíðssálm 119 þar sem segir ,,Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum.“