Krossgötur mánudaginn 19. janúar kl. 13.00. Gísli Sigurðsson, rannsóknarprófessor hjá Árnastofnun: Eddurnar og fornsögurnar eru áreiðanlegar heimildir um lifandi hefð á 13. og 14. öld þar sem heimsmynd og hvers kyns hugmyndum og þekkingu var miðlað með frásagnarlist í lausu máli og bundnu án þess að ritun kæmi við sögu. Sögur voru um staði og farleiðir sem sögupersónur fóru um og tengdust hver annarri með ýmsum hætti – og inn í aðrar sögur sem áheyrendur hafa þekkt til. Umhverfið, svo á jörðu sem á himni, kallaði á sögur af einstaklingum af þessum heimi eða úr veröld hetja, goða og vætta, og skýringar á því hvernig þeir tengdust í gegnum ættir, ástir og örlög. Þannig varð til stöðugt samspil þess sem lifandi fólk hafði fyrir augunum og þeirra persóna og atburða sem það gat sótt í þennan gagnvirka minnislykil sagnalistarinnar. Þær sögur og kvæði lögðu grunninn að hinum rituðu textum sem við köllum eddur og fornsögur og getum lesið á bókum. Með því að lesa fornbókmenntirnar undir þessu sjónarhorni opnast leið til að skilja þær sem hluta af lifandi þekkingarkerfi sem á sér djúpar rætur langt aftur fyrir þá menntun og lærdómshefð sem hingað barst frá meginlandinu og kveikti þá hugmynd að hægt væri að skrifa eitthvað af þeirri þekkingu á bók.Til dæmis verður Eddan kennd við Snorra mjög áreiðanleg heimild í þessu ljósi um það hvernig ungum skáldum á 13. öld var kennt að tengja sögur af goðum við himininn þar sem þær voru sviðsettar fyrir allra augum í heita pottinum í Reykholti – óháð því hvað segja má um trúarbrögð á Norðurlöndum fyrir kristni með þá sömu Eddu sem heimild.