Opnun sýningar Guðrúnar Gunnarsdóttur verður í messu kl. 11.00. Verkin á sýningunni í Neskirkju eru flest frá árinu 2025. Þar er að finna verk unnin úr vir, hrosshárum og plasti. Allt eru þetta efni sem tengjast hugarheimi Guðrúnar með einum og öðrum hætti. Víraverkin tengjast eldri verkum, en eru opnari og enn líkari teikningu en þrívíddarverkum. Hrosshár er nýr efniviður sem Guðrún vinnur með. Hrosshár eru strýr efniviður sem lætur illa að stjórn, en hafa vissa tengingu við fortíð og er í algjörri andstöðu við plastþræðina sem er að finna í nokkrum verkanna. Í plastverkunum er farið inn á hversdaginn, ýmislegt notað sem dettur inn á eitt heimili. Í verkunum er litur og galsi og má næstum lesa verkin eins og heimilisdagbók. En fyrst og fremst er það leikur með línu og þráð sem er uppistaðan í öllum verkunum.