Nútíminn er ekki mikið fyrir predikanir. Þegar við fáum í heimsókn hingað í kirkjuna, talsmenn og hugsjónafólk, hefja þau gjarnan mál sitt á orðunum: „Ég ætla nú ekki að fara að predika.“ 

Er slæmt að predika?
Kannske er það fyrirsjáanlegt að fólk setji þennan fyrirvara í kirkjum. Og mögulega er það líka fyrirsjáanlegt að mér finnist mér þetta nokkurri furðu sæta. Hvað getur verið slæmt við að predika? Ef við hugleiðum það þá eru sumir af stefnumótandi textum sögunnar, einmitt predikanir. „Ég á mér draum“ – sagði Martin Luther King og í framhaldi kom útlegging á texta Jesaja spámanns og öðrum biblíulegum textum. Og þó þarf fólk ekki að leggja út af ritningunni til þess að það sé að predika. 

Ég þegar ég spyr gesti okkar, af hverju þeir komist svona að orði, eru svörin gjarnan á þessa lund: „ég vil ekki segja fólki hvað það á að hugsa.“ Það vil ég ekki heldur og predikun er einmitt ekki þetta í mínum eyrum. Hún fjallar þvert á móti um það sem við erum að hugsa og því miðlum við áfram. Sá er ekki aðeins réttur hverrar manneskju í frjálsu samfélagi, að geta tjáð hugsanir sínar, í sumum tilvikum er það einnig skylda okkar. Þær stundir geta komið upp í lífi okkar að við getum ekki annað en risið upp gegn því sem við teljum vera ranglæti og mismunun og tjáð andmæli okkar. 

Sagt er að Marteinn Lúther – sá þýski – hafi endað ræðu sína þar sem hann stóð frammi fyrir kardínálum rómakirkjunnar á orðunum: „Hér stend ég og get ekki annað.“ Hvort sem þetta er satt eða ekki – mögulega er þetta dramatísk viðbót seinni tíma manna við ræðu hans – en þá rammar þetta inn þá stöðu sem margur hefur fundið sig í. Þegar þögn og aðgerðarleysi jafngilda samþykki – þá verður að grípa til aðgerða, standa þar sem fólk stendur. Annað er ekki hægt.

Húsavík 2007
Þannig stóðum við Solveig Lára Guðmundsdóttir á sögulegri prestastefnu á Húsavík sumarið 2007 og lásum upp tillögu hóps presta og guðfræðinga um að kirkjan viðurkenni skilyrðislausan rétt samkynhneigðra til að ganga í hjúskap. Við vorum 40 sem stóðum að þessari ályktun og hún var sannarlega ekki úr lausu lofti gripin. Að baki henni var langur aðdragandi, samtal og guðfræðileg vinna. Ég ætla ekki að líkja okkur við Lútherana tvo sem fyrr eru nefndir en rétt eins og þeir, höfðum við ritninguna með okkur í liði. 

Fræðimenn á sviði biblíurannsókna höfðu ritskýrt þá texta sem höfðu löngum verið notaðir til að réttlæta fordóma og mismunun í garð hinsegin fólks. Með vísan í samhengi textanna og bakgrunn þeirra sýndu þeir fram á hversu gerólík sú menning var, sem hinir biblíulegu höfundar byggðu á, þeirri sem nú er við lýði. 

Á grundvelli textafræðilegra rannsókna mátti setja orðin á sinn stað og benda á að þau eiga ekkert erindi inn í samtal nútímans um réttindi tiltekinna hópa. Önnur orð eru á hinn bóginn tímalaus, til að mynda boðskapur Páls postula. Hann er leiðarljós fyrir þann jöfnuð sem á að ríkja á milli fólks: „Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú.“

Okkur bar skylda að koma til móts við hóp í samfélagi okkar sem hafði mátt þola ranglæti, eins og nú hefur verið sýnt fram á í þáttunum, Svona fólk eftir kvikmyndagerðarmanninn, Hrafnhildi Gunnarsdóttur. Nóg var komið af þöggun, slúðri og mismunun sem birtist á mörgum sviðum allt frá löggjöf niður í óformlegar samskiptavenjur fólks. Nú höfðum við tækifæri, ekki til að drattast á eftir tíðarandanum, fylgja í kjölfarið og elta lestina – heldur gátum við haft frumkvæði, tekið okkur þá stöðu í baráttunni, svo sem hæfði hlutverki okkar og málstað. 

Spámenn
Þessi hópur guðfræðinga var mótaður af biblíulegri hefð sem er sterk og lifandi allt til okkar daga. Það er hið spámannlega hlutverk hverrar kristinnar manneskju að rísa upp gegn óréttlæti. Spámenn gegndu fastmótuðu hlutverki í hinu gamla Ísrael. Á þeim tíma var sú hugsun ríkjandi að konungurinn væri í raun ekki æðsta yfirvaldið í landinu. Hann þurfti sína leiðsögn og áminningu, sem og yfirstéttin og almenningur. Það var einmitt spámaðurinn sem átti að tala því máli. Hann ávítaði ráðamenn af einurð og hreinskilni þegar á þurfti að halda. 

Þessi er boðskapur Guðs sem ómar inn í hávaða sérhyggju á hverjum tíma. Togstreita eigingirni og örlætis, hroka og auðmýktar er sístæð í sögu mannkyns. Það er þetta sem spámaðurinn Esekíel kallar steinhjarta sem hann vill fjarlægja og setja í staðinn hjarta af holdi og blóði. Því hjarta úr steini er ekki líklegt til að sýna hluttekningu og breytast. Steinhjarta lýsir hugarþeli sem ekki haggast þegar neyðin er allt um kring. Það dregur upp mynd af fólki sem rækir ekki skyldur kærleikans og kærir sig kollótt um það sem þeirra minnstu systkin þurfa að þola. Steinhjarta samtímans birtist okkur með sama hætti þegar við látum hjá líða að leysa brýn úrlausnarmál og þannig skynjuðum við stöðu mála innan kirkjunnar. 

Salt jarðar
Orð Jesú sem lesin voru hér áðan, texti allra heilagra messu eru brýning til kristins fólks um að láta ekki ranglætið viðgangast heldur flytja sinn boðskap og predika sitt erindi. Ef við gerum það ekki, hvernig getum við þá vænst þess að aðrir stigi fram? 

Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum. Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu. Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum. 

Salt jarðar og ljós heimsins, er það fólk sem flytur málstað réttlætis inn í aðstæður þar sem fólk er orðið samdauna og sinnulaust. 

Við sem risum upp á prestastefnu á Húsavík 2007, predikuðum okkar boðskap og okkar skilning á hlutverki kirkjunnar, á breyttum tímum. Við sögðum vitaskuld engum hvað hann eða hún ætti að hugsa. Það er sárt að sitja undir því núna þegar talað er um afglöp prestanna – með ákveðnum greini eins og þar hafi allir setið fastir í sínum sporum og engin risið upp og barist fyrir öðrum málstað. Ekkert gæti þó verið fjær sanni. Þar yfirsést fólki að kirkjan er litrík og margbreytileg, rétt eins og hvert annað mannlegt samfélag. 

Predikun listafólks
Nei, predikun er tjáning. Stundum þegar málsmetandi fólk heimsækir okkur hér í Neskirkju og byrjar ræðu sína á því að það ætli nú ekki að fara að predika – fylgir oft í kjölfarið þessi líka góða predikun! Þar er talað frá hjarta til hjarta og að baki býr einlæg löngun eftir betri heimi og vænlegri framtíð. Sú er einmitt raunin með listafólkið sem sýnir núna í Neskirkju. 

Þessi regnbogamessa er einmitt sungin á sama tíma og við tökum niður verk þeirra Hrafnkels Sigurðssonar, Logns Draumland og Viktoríu Guðnadóttur. Ynda Eldborg, listfræðingur og meðlimur í sjónlistaráði Neskirkju, hefur borið veg og vanda að undirbúningi sýningarinnar. Yfirskriftin er: „Regnbogabraut: Falin saga í 1200 ár.“ Og þarna ávarpar listafólkið hvert með sínum hætti þann veruleika sem hinsegin fólk hefur staðið frammi fyrir kynslóðum saman, og já, leyfi ég mér að segja flytur þessar skínandi predikanir. 

Verk Hrafnkels heitir „Upplausn“. Efniviðurinn er einn pixill, eða myndeind fengin úr mynd frá Hubble geimsjónaukanum. Hrafnkell stækkar hann þar til komið er að ystu mörkum. Hann leiðir áhorfandann að innstu myndeindinni, að kjarna regnbogans, tákni hinseginleikans. Litrófið sem birtist á verki hans sýnir fyrirbæri sem eru í 13 milljarða ljósára fjarlægð – á jaðri alheimsins, frá árdögum sköpunarinnar. Samkynhneigð er jafn upprunaleg önnur kynhneigð en hún hefur til skamms tíma verið á jaðri heimsmyndar okkar. Nú birtist hún okkur hér á veggnum í öllum sínum litbrigðum. 

Verk Logns Draumland ber titilinn „Hinsegin feitir líkamar, staðfesting á tilvist.“ Í kynningu segir að þar séu dregnar fram úr myrkri söguleysis útlínur þeirra sem enga rödd hafa. „Þær eru síðan tengdar með kraftmiklum línum til að undirstrika samtakamátt þeirra sem ekki einungis báru skömm hinseginleikans heldur þurftu líka að bera skömmina sem er þröngvað uppá feita líkama.“  

Ennfremur segir í kynningunni: „Til að snúa dæminu við, efla samtakamáttinn og valdefla þá valdalausu teflir Logn fram líkömum sem tengjast órjúfanlegum böndum þegar þau geysast fram og útúr römmunum til að skila skömminni þangað sem hún á heima í samfélagi fordóma, ofbeldis og kúgunar.“

Í verkinu Þöggun, hugleiðir Viktoría Guðnadóttir tengsl sína við hina beinagrind konu sem hvílir undir gleri á Þjóðminjasafninu. Verkið fjallar um kærleiksríka samsömun kvenna á ólíkum tímum. Í kynningu segir að um konuna ríki eilíf þögn „en eitt eiga þær Viktoría sameiginlegt en það er lega beinagrindarinnar í hliðarstellingu, alveg eins og ég sjálf ligg svo oft í.“ Hún veltir því fyrir sér hvort nunnuklaustrin hafi verið skjól samkynhneigðum konum.  „Þessu flókna samspili þöggunar, kærleika og kúgunar kemur Viktoría á framfæri með djúpa samkennd að leiðarljósi án þess að ganga fram hjá sorg og sársauka,“ segir í kynningu á verkum hennar.

Já, hvar er spámenn er að finna á okkar dögum? Það er ekki síst listafólkið sem opnar augu okkar fyrir víddum tilveru og gefur okkur nýtt sjónarhorn á lífið. Sannarlega er engin vanþörf á fólki sem lítur ekki aðeins á það sem rétt sinn til að tala og predika, heldur er það skylda þess að rísa upp og berjast fyrir bættum heimi. Sannarlega þurfum við fólk sem talar um steinhjörtu okkar daga. Við þurfum rödd í samfélagi okkar sem talar af persónulegri auðmýkt en er drifin áfram í leit að æðri verðmætum og gildum, jafnvel þótt það þýði mótlæti og svívirðingar. 

Þjóðkirkjan og samkynhneigð
Þegar fólk í dag rifjar upp ummæli, seinagang, stirðbusahátt kirkjunnar á sínum tíma má það taka fleiri þætti með í myndina. Það gefur ekki rétta mynd af því regnbogasamfélagi sem þjóðkirkjan er. Stór hópur lagði fram andstæð sjónarmið. Allt er það í anda hins spámannlega hlutverks.

Þegar loksins tókst að komast á áfangastað, höfðum við raun stigið stærri skref í réttindabaráttu samkynhneigðra en nokkur þjóðkirkja hafði áður stigið. Því miður skyggði margt á þann áfanga. En hér stöndum við í dag og fögnum þeim árangri sem unnist hefur. Það er gleðiefni, en við skulum halda vöku okkar. Sagan geymir mörg dæmi um það þegar umbótastarf rennur út í sandinn. Steinhjörtun mæta okkur á öllum tímum. Starf spámannsins tekur aldrei enda.