Þegar listamenn undirbúa sýningu hér á Torginu fæ ég að taka þátt samtali um verkin og hugmyndirnar að baki þeim. Þetta er afar skemmtilegt samtal og listin er af margvíslegum toga. Hér hafa prýtt veggina, svarthvítar landslagsmyndir úr íslenskri náttúru, sandur frá Betlehem, moldug fingraför og ljósmyndir af rusli. Já, og þau tvö síðastnefndu falla í ákveðinn flokk í huga mínum.

Hneyksli?
Við undirbúninginn læðist stundum að mér sá grunur að nú komi fólk að máli við okkur sem hér störfum og geri alvarlegar athugasemdir við það að hafa eitthvað slíkt fyrir augunum í þessum sölum. Ég tala nú ekki um risavöxnu vagínuna og kynlífsleikföngin á verkum Kristínar Gunnlaugsdóttur. Og svo auðvitað núna, líkamsútlínur Logns Draumlands sem hán teiknaði á veggina. Ég spyr mig: Hvað segja gömlu konurnar? hvað segja foreldrar barnanna? fólkið í erfidrykkjum, útskriftarveislum og kirkjukaffi?

Já, hvað er það sem hneykslar og hvað er í lagi?

Sjálfur hef ég varið talsverðum hluta tíma míns í að rýna í tímabil sem á íslensku kallast árnýöld og tekur við þegar miðöldum sleppir. Þá voru siðaskipti að baki, bæði þau sem klufu Vesturkirkjuna í fylkingar með ægilegum átökum og svo líka gagnsiðbót innan Rómakirkjunnar.

Bókstafstrú
Þetta voru tímar blómlegrar ritmenningar – í raun afrakstur fjölmiðlabyltingar þeirrar sem kennd er við Gutenberg. Skyndilega voru bækur almenningseign eða því sem næst. Þeir sem stýrðu prentvélum í hverju samfélagi fengu þarna kjörið tækifæri til að senda frá sér efni sem mótaði fólk, mögulega með afdrifaríkari hætti en áður hafði verið unnt að gera. Bókstafstrú og bókstafshyggja fá aukna merkingu þar sem bókstafir, orð og setningar eru komin upp í hillu á betri heimilum og lesið er upp úr virðulegum bókum á kvöldvökum.

Þá má fá innsýn í það hvað var eftirsóknarvert og lofsvert og svo á hinn bóginn, hvað þótti vera fyrirlitlegt og viðurstyggilegt. Þar á milli var auðvitað margbreytilegt litróf. Einmitt á þessu skeiði sem hér á Íslandi er stundum kallað ,,lærdómsöld“ verða þessar spurningar ekki aðeins aðkallandi – það gafst færi á að bera þær upp og svara þeim með afdráttarlausum hætti. Þetta var tími hins margumtalaða Stóradóms.

Þá varð líka sú breyting sem félags- og sagnfræðin hefur löngum skoðað sem mikil tímamót í mannkynssögunni, þar sem miðstjórnarvald eflist jafnt og þétt. Furstar gerðust yfirmenn kirkju í hverju landi og svo með tímanum urðu þeir að einvöldum. Og hvað er það sem felst í því mikla valdi? Jú, einkaréttur á að beita ofbeldi. Mótunin sem á sér stað á þessum tíma, áróðurinn allur, miðar að því að hvetja fólk til að afhenda valdhöfum réttinn til að hefna sín. Þetta er skeiðið þegar sem blóðhefndarsamfélag miðalda víkur fyrir fullt og allt.

Þess vegna verðum við gapandi yfir refsihörkunni sem fylgdi. Böðlar höfðu nóg að gera við að hýða, aflima, brennimerkja, afhöfða að ógleymdum drekkingum.

Blóðhefnd
Því fer þó fjarri að lífið hafi verið friðsamlegra í fyrri tíð. Það var víst öðru nær, því á tímum blóðhefndar voru það fóstbræður sem sinntu þessum verkum og gengu hart fram í því að fullnægja réttlætinu – hversu réttlátt sem það hefur nú verið.

Auðvitað var reginmunur á því hvort einstaklingur var alinn upp í umhverfi sem hvíldi á þeim grunni að mönnum bæri skylda að hefna ættmenna og bandamanna sem höfðu verið leiknir grátt. Og ekki bara sneiða af þeim auga eða tönn eða lífláta, heldur drepa líka fyrir þeim húskarla og fjölskyldumeðlimi. Og svo hitt hvort manneskjan átti einmitt ekki að sækja rétt sinn sjálf, heldur leita til embættismanna konungs í því skyni að fullnægja réttlætinu.

Neikvæð sýn á samkynhneigð
Þá komum við aftur að þessari sýningu hér á Torginu, Regnbogabraut. Því hvor tveggju þessara menningarheima, samfélag blóðhefndar og það sem lætur yfirvöldum það eftir að hefna, dregur upp afar neikvæða mynd af samkynhneigðum. Má þó gera ráð fyrir því að sú afstaða sé að einhverju leyti tengd þrátt fyrir grundvallarbreytingu á siðferði og hugmyndum.

Nærtækt er að rýna í íslenskan sagnaarf þegar við viljum kynnast hugmyndum blóðhefndarmenningar um samkynhneigð. Þar þótti það vera hið versta níð að vera vændur um ergi. Lífseigari er þó boðskapur Biblíunnar þar sem finna má stöku vers sem fordæma það sem virðist vera samkynhneigð. Spurningin er svo hvort að baki búi sama hugsun og lífseiga fordóma gegn hinsegin fólki megi rekja til gerólíks samfélags en við þekkjum.

Níð og ergi
Á þriðja áratug síðustu aldar tóku fræðimenn að gefa gaum hugtökunum, „níð“ og „ergi“ sem birtust í fornum íslenskum sögum. Slíkt níð þótti vera mjög alvarlegt og vó að karlmennsku manna og hugrekki. Kona sem kölluð var örg, átti aftur á móti að vera talin fjöllynd í karlamálum. Af því að eldri borgarar voru á vegum Neskirkju á Njáluslóðum nú í fyrradag má í því sambandi rifja upp þá kenningu að viðurnefnið Langbrók sé einmitt vísun í vergirni Hallgerðar. Brók var jú karlmannsflík og þarna hafi því óbeint verið að væna hana um slíka ergi. Með sama hætti verður skeggleysi Njáls og orðin um syni hans að þeir væru taðskegglingar, tilefni að vígum og örlögum í sögunni.

Í lögum voru ákvæði um fjörbaugsgarð lögð við níði og alvarlegast var þegar einhver var sagður vera argur. Skörp skil voru dregin á milli kynjanna. Sjálfsmynd karlmannsins hvíldi á því að hann væri til þess bær að vega andstæðinga sína með vopnum og standa vörð um heiður sinn og þeirra sem honum tengdust böndum. Þessir eiginleikar voru nátengdir sæmdinni.

Um Króka-Ref var sagt í samnefndri sögu að hann væri ekki í æði sem aðrir karlar: „heldur var hann kona hina níundu hverju nótt og þurfti þá karlmanns. Var hann þá kallaður Refur hinn ragi.“ Þetta var þó ekki öll sagan enda fékk hann skrifaði um sig heila Íslendingasögu sem fjallar að einhverju leyti um uppreisn æru hans. Hann átti eftir að ná sér niðri á óvildarmönnum sínum og rógberum.

Slíkt níð var ekki aðeins framið með orðum og baktali. Tréníð þekktist einnig þar sem rist var í timbur líkan af tveimur karlmönnum í samförum og þótti það vera hin versti áburður að vera sá sem var sorðinn eins og það var kallað.

Þá var ergi tengd við galdra og er líklegt að sjamani eða annar sá er vildi ná góðum tengslum við aðra heima, gerði sig til fyrir andana. Mörgum karlmönnum þótti því lítið varið í að sinna slíkum verkum og voru þau því einkum á hendi kvenna enda voru völvurnar oftast í því hlutverki. En fróðustu menn á sviði íslendingasagna vilja þó meina að ergi hafi öðru fremur verið tengd ragmennsku – enda orðin nátengd, heldur en raunverulegri kynhegðun og hneigð.

Það vill Helga Kress í það minnsta meina. Hér hafi því samkynhneigð sem slík ekki legið til grundvallar níðinu, heldur hafi rógberar vegið að sjálfri grunnstoð ættarsamfélagsins, tregðu eða veikleika manna í því að rækja hefndarskyldu sína. Slík kvöð var almennt ekki á konum, sem öttu fremur körlum sínum til þeirra verka. Þar með hafi þessi tenging við kvenleika orðið til þess að flétta kynhegðun saman við heiður og sæmd. Megintilgangurinn var að benda á meint veikleikamerki á mönnum. Þar var gerður greinarmunur á því að vera virkur aðili í samförum eða óvirkur ef svo má að orði komast. Hið síðara var andlag níðsins.

Biblían og samkynhneigð
Segja má að dæmin tvö, norræn menning blóðhefnda og afstaða Biblíunnar, mætist í frásögnum af kristnitökunni. Í Þorvaldar þætti Víðförla hæddu heiðnir menn þá Þorvald og Friðrik og ortu um þá níðkvæði þar sem þeir voru vændir um ergi. Væntanlega hefur klæðaburður þeirra haft þar einhver áhrif en gráglettnin reyndist auðvitað banvæn. Þeir drápu þá sem níðið ortu.

Þessir tímar eru jú liðnir en í Biblíunni, nánar tekið í þriðju Mósebók er lagt bann við því að karlmaður leggist með öðrum karlmanni sem kona væri. Þetta er þó aðeins liður í svakalegri upptalningu um það sem má og ekki má – flest af því hafa kristnir menn látið sem vind um eyru þjóta. Það var því þörf á að finna téðu bann einhverja stoð í Nýja testamentinu. Lengi vel lásu því guðfræðingar orð Páls postula sem ákveðna útleggingu á þessu banni. Í fyrra Kórintubréfi segir:

Vitið þér ekki, að ranglátir munu ekki Guðs ríki erfa? Villist ekki! Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar (malakoi) né kynvillingar (arsenokotai), þjófar né ásælnir, drykkjumenn, lastmálir né ræningjar Guðs ríki erfa.

Það sem hér er þýtt sem kynvillingar menn er gríska orðið arsenokotai og karlhórur eru malakoi. Og svona var textinn í þýðingu Biblíunnar frá 1981. Honum var svo breytt í 2007 útgáfunni á þessa leið:

enginn karlmaður sem lætur nota sig eða notar aðra til ólifnaðar

Þegar umræðan innan þjóðkirkjunnar stóð sem hæst um hjónabönd samkynhneigðra rituðu guðfræðingar um bakgrunn þeirrar fordæmingar sem þeir hafa mátt sitja undir í kristnum sið. Clarence Glad fjallaði um ofangreindan texta og lýsti því hvernig þessi orð voru einmitt túlkuð á viðlíka hátt og hjá forfeðrum okkar.

Að hans mati er grunnmerking orðsins malakoi það að vera „mjúkur“ karlmaður, eða „kvenlegur“ maður. Arsenokotai er aftur á móti flóknara. Það er samsett úr orðunum karlmaður (aner) og rekkja/beddi (koite) og má nota yfir kynmök í yfirfærðri merkingu. Orðið kemur þú hvergi fyrir í texta sem gefur ótvíræða vísbendingu um merkingu þess. Orðin tvö hafi vissulega verið túlkuð á þann veg að þolandinn (malakoi) sé „mjúki maðurinn“ í sambandinu en gerandinn hinn sterki (arsenokotai). Sem sagt – sama hugsun og að ofan er fjallað um um að fordæma þá sem eru „óvirkir“ í samförum tveggja karlmanna.

Clarence segir það þó í hæsta máti ósennilegt að Páll hafi talið sig bundinn af ákvæðum Móselaganna enda hafði hann risið upp gegn því sem hann kenndi við lögmálið. Hann gaf til að mynda lítið fyrir umskurð karlmanna, þá grunnstoð samfélags gyðinga. Hvers vegna ætti þá þessi smáklausa að hafa verið honum svo hugfólgin og af hverju gat hann þá ekki sagt það beinum orðum?

Niðurstaða Clarence var að hér væri ekki vísað til kyngervis (karl)persónunnar heldur til siðferðislegra eiginleika sem taldir voru ámælisverðir vegna þess að þeir voru kvenlegir. Þar var átt við skort á sjálfsstjórn og áhuga fyrir hvers konar munaði og ánægju. Víðtækari skírskotun. malakoi gat t.d. vísað til þeirra sem þoldu ekki erfiðisvinnu, menn sem voru taldir vera bleyður, nutu mikils íburðar, borðuðu eða drukku of mikið, stunduðu taumlaust kynlíf, elskuðu dýrindsmat, voru lélegir bardagamenn eða veigruðu sér við að fremja sjálfsmorð.

Það sé því einfaldlega rangt að skilgreina malakoi sem þolandann í kynlífi. Þetta tengdist í rauninni sömu þáttum og í hinum forna sagnaheimil. Hugmyndin sprettur upp úr samfélagi þar sem karlmaðurinn þarf að geta varist og sótt með vopnum til að verja heiður sinna. Einnig varpa heimsendavæntingar ljósi á viðhorf Páls í þessum efnum. Þessi kvenleiki sem Clarence dregur fram í orðunum er sprottinn upp úr menningarheimi hellenismans og tengist karlmannskuímynd þess tíma. Hann er og samofinn neikvæðu mati á ástríðunum og áhrifum þeirra.

Afdráttarlausar kröfur til safnaðarmeðlia í Kórintuborg tengdust háleitum hugmyndum um að skapa fullkomið samfélag áður en dómarinn kæmi í öllu veldi sínu og heimurinn liði undir lok. Þessi langa upptalning eigi sér því ekki siðferðilegar rætur heldur það sem guðfræðingar kalla eskatólógískar – það er, þær vísa fram til hinna efstu daga.

Forsendur fordómanna
Hér er því bent á rök fræðimanna sem halda því fram að hvorki samfélag norrænna manna á söguöld né boðun eins helsta áhrifamanns kristninnar hafi fordæmt samkynheigð í þeirri merkingu sem við leggjum í hana. Hugmyndin var að ekki að vega að kynhneigð heldur var vístað til þess er karlmenn veigruðu sér við að rækja skyldur sínar á sviði mannvíga og hernaðar.

Síðan, þegar refsiharka valdhafa færist í aukanna á þessum tíma sem kenndur eru við árnýöld – eða stóra 17. öldin – þá leitast yfirvöld við að móta manngerð sem hefur stjórn á hvötum sínum og færir þær í viðurkenndan farveg. Liður í því er löggjöf þar sem kynlífi fólks eru settar strangar skorður. Athafnir á því sviði eru taldar refsiverðar þótt ekki sé hægt að tala um að nokkrum fórnarlömbum sé til að dreifa. Samkynhneigð féll undir þann hatt. Lög birtu ýtarlega upptalningu á forboðnum liðum ættingja og venslafólks (sumt alls óskylt) sem ekki mátt hafa samneyti við.

Þar seildust ráðandi öfl inn á einkalíf þegna sinna og réttlætingin á slíku gat verið af ýmsum toga. Mögulega lá þar að baki einhver ótti um ófarir eða hörmungar, þessa heims eða annars, ef slíkt yrði ekki bælt niður. Miklu fremur var þetta líka hörkulegt uppeldi samfélags sem átti að vera undirgefið sínum valdhöfum og þá skipti máli að beisla kynhvötina, og allt það sem af henni kunni að leiða.

Þótt þessar hugmyndir séu líkar þeirri andúð á kvenleika karlmanna sem hér hefur verið lýst, eru þær af allt öðrum toga. Eins og svo margar hefðir þá eru rætur hennar ekki eins djúpar og margur kynni að ætla. Þvert á móti má tengja hana við viðleitnina til að móta fólk eftir ákveðinni forskrift, skilgreina hvað það er sem er ásættanlegt og hvað er metið forkastanlegt. En forsendurnar voru allar aðrar.

Hvað hneykslar?
Já, og svo situr þetta í mergnum á manni. Ég hugleiði það einmitt þegar ég ræði við listamenn um verkin eða sé þau hér uppi á veggnum hvað það er sem kann að valda hneykslun og hvort okkur hafi tekist að ganga fram að einhverjum. Ekki hef ég þó enn fengið umkvörtun þess efnis að hér hafi listafólk farið yfir strikið. Verk Logns Draumland er til að mynda í samræmi við verk sem prýða kirkjur út um allan heim þar sem mannslíkaminn er sýndur í nekt sinni. Við stöndum á þröskuldi enn einna breytinga þar sem átakalínur eru til staðar og allar breytingar fela einmitt í sér einhverja togstreitu hugmynda. Kirkjan hefur fengið sinn skerf af því en innri gagnrýni er einmitt liður í starfi hennar og sífellt endurmat á viðteknum hugmyndum og venjum.

Fjölmörg dæmi má finna úr sögunni þar sem ríkjandi hugmyndir hafa þótt vera orðnar úr sér gengnar, yfirstjórn spillt og afstaða til ýmissa hópa fyrir neðan allar hellur. Þá hrópar fólk á nýja hugsun og nýja sýn. Þess vegna er kirkjan líka síbreytileg og vegferð hennar einkennist af síðstæðri endurskoðun og siðbót. Þar erum við stödd núna. Við megum á hinn bóginn gæta okkar því sagan geymir líka mörg dæmi um það þegar umbætur renna út í sandinn og allt festist að nýju í sömu klakaböndum.