Allt á sér sögu og bakgrunn. Þessir tímar áts sem nú standa yfir, eru leifar af kjötkveðjuhátíð. Vikurnar framundan, allt til páska, kallast fasta. Sú var tíðin að þá reyndi fólk lifa og eta sparlega, gæta hófs. Þannig var það í það minnsta í gyðingdómi og í kristnum sið.

Karnival
Áður en einhver þakkar Guði fyrir að vera laus undan valdi presta og spámanna, er rétt að skoða þetta örlítið nánar.

Fastan er náttúruleg og vistvæn. Í gamla sveitasamfélaginu var hún lífsbjörg. Þau sem hámuðu í sig ket um þetta leyti árs átu sig og afkomendurna út á gaddinn. Þegar vetur var senn á enda liðinn þá var þröngt í búi og undaneldisgripirnir einir eftir. Þeir gefa ekki mikið af sér, eftir ferðalag um meltingarveg eigenda sinna. Þess lét fólk kjötið eiga sig.

Nú eru veisludagar. Í gær átum við rjómabollur, í dag er sprengidagur og á morgun er öskudagur með sætindum og fjöri. Kjötkveðjuhátíðin er í fullu gildi hjá okkur, en við sleppum föstunni! Allir okkar dagar eru sprengidagar. Við sprengjum öll mörk og látum eins og næstu tímar og kynslóðir komi okkur ekki við.

Vistvæn fasta
Jörðin stynur undan ágangi okkar, í lofti, á láði og legi. Þar er ekkert undanskilið og Íslendingar munu vera mestu umhverfissóðarnir. Velmegunin er ekki hættulaus heldur. Nú deyja fleiri úr velmegun en í stríði. Hitt er verra, að að við lifum um efni fram, þegar litið er til þess hvað jörðin okkar getur þolað.

Þegar við erum búin að skola út saltinu eftir veisluhöld kvöldsins og klára síðustu karamellurnar í grímuklædd börnin, legg ég til að við pælum í föstunni. Veltum því fyrir okkur hvort það er ekki kominn tími til að minnka veisluna, fækka veisludögum svo að eitthvað verði til skiptanna fyrir börnin okkar og afkomendur þeirra.

 

(Birt í Fréttablaðinu 5. mars 2019)