Á Kirkjutorgi, safnaðarheimili Neskirkju eru fjórar allstórar myndir sem sýna Neskirkju eftir Einar Garibalda. Á heimasíðu kirkjunnar gerir listamaðurinn grein fyrir þessum myndum meðal annars með þessum orðum:

„Fyrirmynd verkanna á sýningunni er að finna á götukorti af Reykjavík, en þar hafa nokkrir áhugaverðir staðir í borginni verið dregnir fram með lítilli þrívíddarmynd. Einn þessara staða er Neskirkja og hefur þessi litla og stílfærða mynd verið mér sem vegvísir í malerískri leit að sóknarkirkju minni.“ Í erindi Dr. Gunnars Kristjánssonar verður fjallað um verkin út frá því sem listamaðurinn kallar „maleríska leit sð sóknarkirkju sinni.“

Verkin verða m.a. skoðuð í ljósi dulhyggju sem var mikill áhrifavaldur í myndlist tuttugustu aldar. Í því sambandi verður m.a. fjallað um trúarheimspeki og trúarreynslu sem viðfangsefni skapandi listamanna.

Dr. Gunnar Kristjánsson hefur um langt skeið fjallað um tengsl trúar og myndlistar og má nefna fyrirlestrarröð sem hann stóð fyrir í Hafnarborg á 10. áratugnum um málefnið.

Dagskráin fer fram í safnaðarheimili Neskirkju fimmtudaginn 3. sept. og hefst kl. 17:00.