Í dag er alþjóðadagur gegn fordómum og munu ungmenni úr æskulýðsstarfi kirkjunnar standa fyrir viðburði í Smáralind í tilefni dagsins. Krakkarnir verða máluð í framan og í bolum sem á stendur „Rasisti! Ekki ég!“ og vilja þannig vekja fólk til umhugsunar um að fæstir eru meðvitaðir um eigin fordóma. Dagskráin stendur yfir frá 18.00-19.00.

Viðburðurinn hefst kl. 18:00 með ýmsum skemmtiatriðum á sviði fyrir framan Debenhams, á fyrstu hæð Smáralindar. Eftir skemmtiatriðin munu unglingarnir bjóða gestum og gangandi að taka þátt í leikjum og leggja hönd á plóg við gerð listaverks sem sýnir samstöðu gegn kynþáttafordómum. Síðast en ekki síst munu þátttakendurnir dreifa fræðsluefni, og Alþjóðatorg ungmenna býður upp á virka fræðslu með Lifandi bókasafni sem verður m.a. á kaffihúsum Smáralindar.
Dagskrá:
· Menntaskólinn í Kópavogi sýnir brot úr söngleiknum Mamma Mia
· Leikfélagið Ævintýrabörn flytur frumsamið leikrit um kynþáttafordóma
· Jóhanna Elísa Skúladóttir, keppandi í Samfés 2011, tekur lagið
· Dansíþróttafélag Hafnarfjarðar sýnir listir sínar
· Friðrik Dór syngur fyrir gesti og gangandi