Hefurðu einhvern tíman hitt einhvern sem þú ættir að þekkja en kemur bara ekki fyrir þig? Það hefur sko komið fyrir mig og það getur verið mjög vandræðalegt. Og ein af ástæðum þess að ég þekki ekki einstaklinginn er að ég þekki hann úr einhverju öðru samhengi en ég er stödd í og á ekki von á að hitta hann á þessum stað.

Ég velti fyrir mér hvort það hafi verið vandi lærisveinanna í sögunni um Emmaus farana í Biblíunni, sem við rifjum oft upp eftir páska. Sagan segir frá tveimur fylgjendum Jesú sem yfirgáfu Jerúsalem á páskadag, daprir og ringlaðir. Annar hét Keofas en við vitum ekki nafn hins. Kannski var það kona. Segjum það. Þau höfðu fylgt Jesú og trúað því að hann væri sá sem myndi leysa þjóðina undan valdi Rómverja – myndi breyta heiminum. En svo var hann krossfestur. Tekinn af lífi. Þetta var allt búið. Og einhverjar sögur kvenna þennan morgun um að líkið væri horfið og þær hefðu mætt Jesú – það gerði þau bara ringluð.

Sorgin og vonbrigðin leyna sér ekki í því hvernig þau bera sig, hvað þau segja – svo mikil að það hefur áhrif á það hvað þeir sjá. Því að Jesús kemur til þeirra á veginum og gengur með þeim itl Emmaus, en þauþekktu hann ekki.

Á leiðinni segir hann þeim að þeir hafi misskilið allt – að allt sem gerðist hafi í raun verið í samræmi við ritningarnar. Þau heyrðu, og ég held að þeim hafi verið huggun í því – en þau þekktu hann samt ekki. Fyrr en þau settust saman að kvöldverði og hann flutti borðbæn og braut brauðið. Þá var eins og hulunni væri lyft og þeir þekktu aftur Jesú, sem hafði brotið brauð og gefið fylgjendum sínum – brauð lífsins. Og þá hvarf ann sjónum þeirra.

En nú skildu þau allt sem hann hafði sagt við þau og það gaf þeim nýtt hlutverk. Þau máttu engan tíma missa. Þau flýttu sér til baka til Jerúsalem að segja hinum fylgjendum Jesú frá þessu – til að segja góðu fréttirnar – fagnaðarerindið.

Þegar þau voru sorgmædd og miður sín þá sáu þau ekki alla myndina. Sorgin byrgði sýn. Sorg gerir það og við þekkjum það sem þekkjum sorg. Þegar við erum sorgmædd þá er erfitt að ímynda ser tíma þar sem sorginni linnir. Þegar við erum örvæntingarfull er erfitt að sjá annað en örvæntinguna. Þegar við erum kvíðin litar kvíðinn allt sem við sjáum.

Sagan um Emmausfarana segir okkur að Jesús gangi með okkur á slíkum tímum. Og líka á þessari undarlegu leið núna þegar óvissan er það eina sem við getum verið viss um. Sjáum við hann? Finnum við fyrir návist hans?

Þegar lærisveinarnir þekktu Jesú opnuðust augu þeirra og þeir fengu nýtt hlutverk – að segja góðu fréttirnar.

Hvað sjáum við þegar við skoðum líf okkar? Þegar við horfum fram á veginn? Er eitthvað sem lokar fyrir sjón okkar, dregur okkur niður. Er möguleiki að við sjáum ekki eitthvað sem blasir við? Kannski við ættum að biðja Guð að opna augu okkar og hjálpa okkur að sjá – sjá lífið, sjá líka það góða og jákvæða og umfram allt sjá að við erum ekki ein.

 

Góðar stundir.