Hvenær byrjar eilífa lífið? Ekki hinum megin við dauða og gröf heldur í skírninni. Þar byrjar lífsgangan með Guði. Skírnin er sakramenti, gjöf Guðs til manna. Hún er merkasti viðburður mannsævinnar því barnið er vígt himninum.

Uppvöxtur barns er mótunartími. Barn þarf líka að læra að umgangast hið heilaga, að tala við Guð og að sjá líf sitt í stóru samhengi lífsins, þarf að læra að sjá hlutverk sitt í tengslum við annað fólk, bera virðingu fyrir sjálfu sér og að þjóna öðrum og nýta hæfileika sína til góðs.

Kirkjan er heimili hins skírða og aðstoðar við trúarlega mótun. Guðmæður og guðfeðgin geta líka lagt foreldrum lið við uppeldið.

Í dag byrjar nýtt líf, eilíft líf. Biðjum fyrir barninu og styðjum öll velferð þess í tíma og eilífð.
Höldum hátíð.

Skírnarathöfn:

1. Sálmur

2. Ávarp

3. Ritningarlestur

Presturinn:
Heyrum nú vitnisburð Guðs orðs um heilaga skírn.

Prestur eða lesari segir:

Jesús segir: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ (Matt 28.18-20)

Í beinu framhaldi segir presturinn eða annar lesari:

Heyrum ennfremur þessa frásögn: Menn færðu börn til Jesú, að hann snerti þau, en lærisveinarnir átöldu þá. Þegar Jesú sá það, sárnaði honum og hann mælti við þá: „Leyfið börnunum að koma til mín og varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki. Sannlega segi ég yður : Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma.“ Og hann tók börnin sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði
þau.(Mark 10.13-16)

4.Skírnarbænir og helgun skírnarvatns

Presturinn: Fer með bæn sem endar á orðunum …
Fyrir Jesú Krist,Drottin vorn.
Söfnuður svarar :Amen

5.Trúarjátning

Ég trúi á Guð, föður almáttugan, skapara himins og jarðar.

Ég trúi á Jesú Krist, hans einkason,Drottin vorn, sem getinn er af heilögum anda, fæddur af Maríu Mey, píndur á dögum Pontíusar Pílatusar, krossfestur dáinn og grafinn, steig niður til heljar, reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum, steig upp til
himna, situr við hægri hönd Guðs föður almáttugs og mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða.

Ég trúi á heilagan anda, heilaga almenna kirkju, samfélag heilagra, fyrirgefningu syndanna, upprisu mannsins og eilíft líf.

6. Signing

barnið er helgað Guði með krossins á enni og brjóst

7. Skírnarspurning:
Hvert er nafn barnsins?

8. Skírnin

9. Faðir vor

10. Blessun

11. Ávarp

12. Sálmur