Að öðrum þræði
Guðrún Gunnarsdóttir

12. október – 23. nóvember 2025

Verkin á sýningunni í Neskirkju eru flest frá árinu 2025. Þar er að finna verk unnin úr vir, hrosshárum og plasti. Allt eru þetta efni sem tengjast hugarheimi Guðrúnar með einum og öðrum hætti. Víraverkin tengjast eldri verkum, en eru opnari og enn líkari teikningu en þrívíddarverkum. Hrosshár er nýr efniviður sem Guðrún vinnur með. Hrosshár eru strýr efniviður sem lætur illa að stjórn, en hafa vissa tengingu við fortíð og er í algjörri andstöðu við plastþræðina sem er að finna í nokkrum verkanna. Í plastverkunum er farið inn á hversdaginn, ýmislegt notað sem dettur inn á eitt heimili. Í verkunum er litur og galsi og má næstum lesa verkin eins og heimilisdagbók. En fyrst og fremst er það leikur með línu og þráð sem er uppistaðan í öllum verkunum.

Guðrún er menntaður vefari frá Kaupmannahöfn og hefur unnið við myndlist og textílhönnun frá árinu 1976. Í byrjun ferilsins vann listamaðurinn aðallega við gerð veggteppa, stórra og smáa en smám saman breyttist áherslan í átt að þræðinum og línunni. Það má segja að vinna Guðrúnar sé meira í átt við spuna kóngulóarinnar en vefnaðar. Guðrún vinnur verkin í höndunum og lítur á sig sem þráðlistamann. Verkin eru einskonar þrívíddarteikningar á vegg. Áður fyrr notaði hún aðallega vír í þráðlistaverkin, en í dag er ýmisskonar þráður notaður, það sem hendi er næst og þannig nær hún að koma litum inn í verkin sem erfitt er að gera með svörtum vír. Guðrún hefur haldið yfir 25 einkasýningar, tekið þátt í fjölmörgum samsýningum hérlendis sem erlendis. Guðrún hefur dvalið á vinnustofum erlendis m.a. í Japan þar sem Guðrún heillaðist af japanskri fagurfræði. Verk hennar eru í eigu helstu listasafna landsins.