Þetta er merkileg athöfn hérna í Neskirkju. Það er ekki oft sem við erum með slíka heiðursgesti í sömu athöfn – börn borin til skírnar og ungmenni staðfestir skírnarheiti sitt.

Missíð klæði
Þessar tvær athafnir – skírn og ferming – eru nátengdar eins og við sjáum á fatnaði aðalfólksins hérna í kirkjunni. Þegar við erum skírð erum við auðvitað varnarleysið uppmálað en um leið er það eitt af undrun lífsins hversu áhrifamikil börnin eru. Þau veita líka prófsteininn á hvert samfélag. Aðbúnaður þess í garð barna er mikilvægur mælikvarði á siðferði íbúanna og forgangsröðun. Slíkt blasir ekki endilega við.

Heimurinn sem við byggjum er ekki sérlega barnvænn. Við tölum ekki mikið um það en víða um heim er illa búið að börnum og aðbúnaður þeirra og skilyrði sem munu ganga hér um á jörðinni eftir að okkar dagar eru að baki, ætti að vera eitt af stærstu viðfangsefnum okkar.

Jesús og börnin
Það er því ekki að undra að börn komi oft við sögu í boðskap Jesú Krists. Kristur hampar börnum hvað eftir annað og ögrar þar vitaskuld þeim hugmyndum sem voru við lýði í umhverfi hans þar sem réttindi barna og barnavernd voru framandleg hugtök. Nei, Kristur sá eitthvað stórkostlegt í börnunum. Hann talaði oft um þau, ekki aðeins sem jafngild hinum fullorðnu, heldur jafnvel eitthvað æðra og merkilegra þeim sem slitið höfðu barnskónum.

Börnin eru oft talin fremri lærisveinunum sem fylgdu honum eftir og reyndu að meðtaka það sem þeir sáu og heyrðu. Hópurinn stóð ráðþrota frammi fyrir þúsundum sem höfðu safnast saman til að hlýða á boðskapinn úti í eyðimörkinni og allir voru orðnir sársvangir. Þá kom barn með fáeina fiska og brauð og lét í hendur meistarans og í framhaldi af því varð kraftaverkið stóra. Skilaboðin? Barnið lagði fram það sem það átti, gaf það litla sem það hafði til að gefa og það var svo óendanlega miklu meira en ekkert. Það var allt sem þurfti.

Nema þið verðið eins og börn
Þegar lærisveinarnir körpuðu hver við annan um það hver væri æðstur í ríki Guðs kallaði Kristur á barn sem var þar í grenndinni og sagði þeim, mitt í öllum metingnum, að það yrði æðst í Guðs ríki. Í því væri að finna það hugarfar sem gilti gagnvart Guði. Boðskapurinn? Ekki hreykja ykkur upp gagnvart Guði. Farið hina leiðina. Verið auðmjúk, sönn og einlæg. Viðurkennið vanmátt ykkar og takmörk, kunnið að þiggja eins og barnið kann og miðlið á móti þeim kærleika sem setur engin skilyrði. Eða hvernig mætti sjálfur Guð manninum á hinum fyrstu jólum? Var það ekki sem barn?

Hér í skírnarguðspjallinu lásum við um það þegar þeir ágætu lærisveinar vildu meina fólki að færa börnin til Jesú. Af hverju skyldu þeir gera það? Jú, vegna þess að rabbíninn átti ekki að ómaka sig við svo slíka einstaklinga, sem börnin eru. Þannig voru  hugmyndirnar. Þau höfðu ekki þroska til þess að meðtaka viskuna. Þau höfðu ekki áhrif til þess að vinna að þeim markmiðum sem boðskapurinn kallaði á. „Menn færðu börn til Jesú að hann snerti þau en lærisveinarnir átöldu þá“.

Særindi
Viðbrögð Krists birta okkur snarpa innsýn í persónu hans. Honum sárnaði. Því siðferði það sem Kristur vill miðla til okkar lýtur að þessu sama: að hlúa að þeim sem á því þurfa að halda, ekki vegna þess að þeir launi okkur til baka. Ekki vegna þess að einhver annar komi til með að borga okkur eða endurgjalda. Nei, bara vegna þess að þetta er göfugt hlutverk okkar og skylda. Það er þetta sem gildismat okkar á að miðla og enduróma. Og Kristi sárnar það að þeir skyldu reyna að varna fólkinu því að færa börnin til hans.

Skírn
Þessi orð rifjum við upp er börn eru færð inn í helgidóminn að skírnarlauginni. Þetta sýnir afstöðu kirkjunnar til barnanna. Þar eru þau tekin inn í söfnuðinn, þau fá fyrirbæn til framtíðar og hópurinn snýr heim á leið úr kirkjunni svo miklu ríkari en hann var áður en hann gekk inn fyrir dyrnar. Þetta undirstrikar það að við erum öll börn Guðs. Við tökum við náðinni sem gjöf og við þurfum ekkert að láta á mót – ekki frekar en barnið getur gert.

En ef við tökum við þessum boðskap þá er það ekki lengur spurning um hvað við þurfum að gera. Spurningin er hvað viljum við gera. Því við skírnina er barnið orðið hluti af stórkostlegu samfélagi. Nafn þess er gjarnan nefnt opinberlega í fyrsta skipti af þessu tilefni. Það er ríkulega blessað af fyrirbænum og fjölskyldan fær það verðuga hlutverk að kenna barninu þann lífgefandi boðskap sem Jesús Kristur hafði að miðla um fyrirgefningu, náungakærleika, virðingu fyrir sjálfum sér, náunganum og umhverfinu og síðast en ekki síst: því gildismati sem boðar það að koma vel fram við þá sem minna mega sín.

Framtíðarsýn
Hvergi verður þessi framtíðarsýn skýrari en þegar Kristur talar við börnin og þegar hann blessar börnin með nærveru sinni. Hann sér það dýrmæta í sálu þeirra og veit að þau eru sköpuð í mynd Guðs. Já, „allir sem leiðast af anda Guðs eru Guðs börn.“ (Róm 8.14) Og það er okkur hollt að vita það sem trúum á Jesú Krist að Kristur trúir líka á okkur. Hann hefur óbilandi trú á okkur og tekur börnin að sér í heilagri skírn í því trausti að þau eigi eftir að upplifa það sem köllun sína og tilgang að miðla kærleikanum áfram til umhverfis síns. Um þetta fjalla sæluboðorðin sem Ísold las hérna áðan. Sama hvað á dynur í lífinu, þegar við mætum óréttlæti, sorg, skorti af einhverjum toga þá missir Guð aldrei trúna á okkur.

Mælikvarði á siðferði okkar
Með þeim hætti eigum við að láta orð hans leiða okkur áfram. Sérstaklega þegar við hugleiðum hlutskipti barnsins sem við þurfum svo mjög að hlúa að. Það gerum við til dæmis hér í helgidómnum þegar við fyllum umhverfið af söng og gleði og miðlum um leið þessum dýrmætu sannindum. Það gerum við þegar við sýnum ábyrgð gagnvart umhverfi okkar svo afkomendurnir njóti sköpunarinnar með þeirri hagsæld sem við njótum. Það gerum við þegar við tökum til varnar fyrir okkar minnstu bræður og systur í stríðshrjáðum löndum og tölum þeirri rödd sem hjarta okkar býður.

Barnið er í aðalhlutverki í fagnaðarerindi Biblíunnar því það er þegar allt kemur til alls sá spegill sem segir okkur sannleikann um okkur sjálf: verk okkar og gildismat.