12191086_989476454450627_8141383802645844807_nLaugardaginn 28. nóvember verður haldin í Neskirkju hátíð, þar sem ást og virðing mun leysa hatrið af hólmi, en Neskirkja hefur tekið höndum saman við múslima í Félagskapnum Horizon um að halda Ashura hátíð að tyrkneskum sið.

Ashura hátíðin á rætur að rekja til sögunnar af örkinni hans Nóa en helgisögur segja að þegar Nói fann land eftir flóðið fagnaði hann með því að búa til búðing með öllu því hráefni hann gat safnað. Óvenjuleg samblanda innihaldsefna gerði búðinginn sérlega góðan og er því tákn fyrir þau menningarlegu verðmæti sem fjölmenningarsamfélagið ber með sér.

Á hátíðinni verður borið fram það besta sem þessar ólíku trúararfleifðir hafa upp á bjóða. Horizon leggur til íslamska matargerð, bænadans að sið Súfista og tyrkneska Ebru málun og frá Neskirkju syngur kórinn valda sálma og lög, æskulýðsfélagið NeDó stígur á stokk og biskup Íslands mun bera fram friðarorð.

Aðgangur er ókeypis og öllum hjartanlega velkomið að koma.

Dagskrá hátíðarinnar

  • Húsið opnar kl. 15.00
  • 15.15 – Ávörp
    • Sigurvin Lárus Jónsson prestur í Neskirkju
    • Félagi úr Horizon
    • Agnes Sigurðardóttir biskup Íslands
  • 15.30 – Tyrkneskur bænadans (Whirling Dervish)
  • 15.50 – Tónlist – Kór Neskirkju
  • 16.00 – Kaffi og veitingar
  • 16.30 – Ebru listsýning (málað á vatn að tyrkneskum sið)
  • 17.00 – Tyrkneskur bænadans (Whirling Dervish)
  • 17.10 – Ashura búðingur borinn fram
  • 17.15 – Skilaboð lesin frá Fetullah Gülen, íslömskum fræðimanni og friðbera
  • 17.30 – Hátíð lýkur