Sunnudaginn 18. febrúar kl. 18.00 bíður Neskirkja upp á samtal á lönguföstu um vistvernd. Þótt fastan hafi trúarlegt inntak bendir allt til þess að upphaflega hafi hún snúist um nægjusemi og nauðsynlega framsýni. Tilgangur hennar var sá að fólk myndi ekki éta sig ekki út á gaddinn þegar lítið var eftir í matarbúrinu á bæjunum í vetrarlok. Bann við neyslu á kjöti og öðru feitmeti hafði jú þann tilgang að undaneldisgripirnir gætu skilað af sér afkvæmum og að útsæðið væri enn til staðar þegar fór að vora.
Þessi hugsun á erindi við okkur nútímafólk. Við höldum okkar kjötkveðjuhátíðir á bollu-, sprengi- og öskudegi en neytum svo áfram og sóum eins og enginn sé morgundagurinn. Þetta má auðvitað skoða í víðtækara samhengi. Samtal þetta í Neskirkju, á fyrsta sunnudegi í föstu snýr að tímabærri umræðu um vistvernd. Markmiðin eru þessi:
Að byggja brú á milli fræða og gjörða.
Að kalla eftir ástríðu fyrir náttúruvernd.
Að skapa vettvang fyrir formlega umræðu á þessu sviði.
Að finna fleiri leiðir til að halda baráttunni áfram.
Frummælandi er Skúli Skúlason líffræðingur og fyrrum rektor Háskólans á Hólum. Að loknu erindi hans eru pallborðsumræður þar sem eftirtalin sitja:
Sólveig Anna Bóasdóttir, guðfræðingur
Þorgerður María Þorbjarnardóttir, form. Landverndar
Snorri Sigurðsson, líffræðingur.
Einnig flytur Þorgerður María Þorbjarnardóttir formaður Landverndar fimm mínútna ör-erindi.
Við bjóðum upp á grænmetissúpu og tímabærar umræður um brýnustu mál samtíma og framtíðar.