Sýning Þrándar Þórarinssonar sem opnuð verður í Neskirkju, beinir sjónum að Hólavallagarði, eða Gamla kirkjugarðinum eins og hann er oftar nefndur, ásamt með nánasta umhverfi garðsins, en með ákveðinni áherslu á það fólk sem grafið er í garðinum, kannski sérstaklega þær persónur sem hafa gert tilkall til framhaldslífs á hinn allra ókristilegasta máta, það er að segja gegnum listina.
Dagskráin hefst í Neskirkju kl. 11:00 með messu þar sem sérstaklega verður fjallað um verkin á sýningunni. Að henni lokinni verður haldið á Torgið og gestir skoða sýninguna með leiðsögn listamannsins. Loks verður farið í fylgd Heimis Janusarsonar kirkjugarðsvarðar í Hólavallagarð og Heimir fræðir fólk um garðinn og vettvang mynda Þránds.