Hugvekja í guðsþjónustu 15. mars. Ritningarlestur Mark. 4:35-41

Lítil stúlka sem átti að fermast í vor er vonsvikin. Hún hafði beðið Guð á hverjum degi að láta ekki kórónuveiruna fresta fermingunni. Og svo er öllu frestað. Og drengirnir í æskulýðsfélaginu báðu Guð að láta veiruna hverfa.

Hlustaði Guð ekki? Gat Guð ekkert gert? Af hverju gerist þetta? Af hendir illt þau sem eru heiðarleg og góð?

Þetta er spurning sem fólk hefur spurt sig frá upphafi. Og við sjáum hana aftur og aftur í Biblíunni sem glímir að stórum hluta við hana.

Við þekkjum það úr veraldarsögunni að náttúruhamfarir hafa oft verið túlkaðar sem tákn um reiði guðs eða guðanna. Við munum til dæmis eftir slíku tilsvari úr sögum af kristnitökunni – þegar hraunstraumur var talinn tákn um reiði Óðins. En þar kom svarið líka skjótt – Hvað með hraunið undir fótum okkar nú – hverju reiddust goðin er það rann? Eldgos er ekki refsing guðs heldur sköpunarkraftur Guðs að verki. Sambúð náttúru og manns er hins vegar viðkvæm jafna sem stundum þarfnast aðlögunar. Stundum byggjum við of nærri eldfjalli. Það gýs ekki oft, en þegar slíkt gerist eru húsin – og fólkið – í hættu.

Nú berst stór hluti heimsins við nýja veiru sem hefur reynst mjög skæð. Hún kemur upp eins og margar aðrar veirur vegna þess hve náin sambúð eða tengsl fólks er við dýr – eða sýkt dýr. Þarna er hluti af lögmálum náttúrunnar að verki – þetta gerist ekki mjög oft en þegar það gerist er fólk í hættu.

Af hverju getum við ekki beðið Guð að stoppa veiruna og hún stöðvast? Mitt svar við því er að bænin er ekki pöntunarlisti heldur samtal, hluti af samfylgd sem hefst við skírn og lýkur aldrei.

Við heyrðum hvað slík samfylgd þýðir í  guðspjallinu sem var lesið áðan. um það þegar Jesús kyrrir storm og öldur.

Þetta hafði verið góður dagur hjá Jesú og lærisveinunum í Galíleu. Þeir voru við Genesaretvatn. Hvar sem Jesús fór fylgdi honum mannfjöldi og hann hafði talað til fólksins uppi á fjalli og þegar hann gekk niður fylgdu honum margir. Og hann læknaði sjúka og rak burt illa anda. Og þegar liðið var á kvöld og fólkið hélt áfram að hópast um Jesú bað hann lærisveina sína að fara með sig yfir vatnið. Það var líklega eina leiðin til að fá hvíld.

Þeir leggja af stað og þá gerist það sem stundum gerist á Genesaretvatni eða Jom Kinneret eins og það heitir á hebresku. Það hvessir og öldurnar rísa himinhátt. Lærisveinarnir skelfast en Jesús sefur. Hann hlýtur að hafa verið úrvinda og maður skilur það þegar maður skoðar allt sem hann hafði gert þennan dag og lýst er í guðspjallinu. Auðvitað er skrítið að sofa í bátskænu í stórsjó, en úrvinda fólk sefur við ótrúlegustu aðstæður. En lærisveinarnir sofa ekki – þeir hrópa á hann: Ætlarðu ekki að bjarga okkur, maður? Við förumst!

Dagurinn hafði verið svo góður – fullur af jákvæðni, áköfum fylgismönnum, velheppnuðum kraftaverkum. Og nú þessi skelfing. Þeir höfðu fylgt Jesú í ár. Þennan dag höfðu þeir heyrt hann tala, séð hann lækna sjúka, reka út illa anda, gera stórkostleg kraftaverk. Samt efuðust þeir, samt urðu þeir hræddir. Hvers vegna lætur þú þetta gerast? Er þér alveg sama?

Mér hefur alltaf þótt vænt um þessa sögu af því að þegar við erum í stormi og stórsjó þá hættir okkur til að gleyma því að Jesús er í bátnum. Við erum ekki ein.

Við Íslendingar eigum margar líkingar úr sjómannamáli sem við grípum til, meðal annars þegar á bjátar. Við tölum um þjóðarskútuna sem nú siglir í stórsjó svo brýtur á henni. Við erum í stórsjó núna, brotið eiga eftir að ganga yfir. Við finnum kannski ekki fyrir samfylgdinni á köflum en hún er þarna – Jesús er í bátnum.

Og eins og lærisveinarnir getum við kallað til hans. Við getum beðið, talað, skammast, óskað, grátið – og við getum það af því að við erum ekki ein. Það er það sem samfylgd þýðir.

Samfylgd sem nær út allt lífið og líka er því lýkur.

Jesús er í bátnum. Það er gott að muna það á næstu vikum. Við þurfum þrautsegju og við þurfum að halda í það sem getur styrkt okkur: æfa okkur í þakklæti, velja það góða. Og umfram allt skulum við halda í bænina, ekki sem pöntunarlista heldur sem samfylgd. Biðjum fyrir fólki – fyrir öllum sem við elskum, fyrir öllum sem við höfum áhyggjur af – og vefjum þau bænarörmum og finnum að við erum ekki ein í því. Af því að við erum í samfylgd.

 

Að kvöldi sama dags sagði Jesús við þá: „Förum yfir um vatnið!“ Þeir skildu þá við mannfjöldann, fóru í bátinn þar sem Jesús var og sigldu burt. Aðrir bátar fylgdu þeim eftir. Þá brast á stormhrina mikil og féllu öldurnar inn í bátinn svo við lá að hann fyllti. Jesús var í skutnum og svaf á kodda. Þeir vöktu hann og sögðu við hann: „Meistari, hirðir þú ekki um að við förumst?“

Hann vaknaði, hastaði á vindinn og sagði við vatnið: „Þegi þú, haf hljótt um þig!“ Þá lægði vindinn og gerði stillilogn. Og hann sagði við þá: „Hví eruð þið hræddir, hafið þið enn enga trú?“

En þeir urðu miklum ótta lostnir og sögðu hver við annan: „Hver er þessi? Jafnvel vindur og vatn hlýða honum.“