Yfirskrift Skammdegisbirtu, fimmtudaginn 5. mars kl. 18.00, er Sprengidagar og tengist umfjöllunin föstunni sem er nýgengin í garð. Gunnella Þorgeirsdóttir þjóðfræðingur með meiru er aðalfyrirlesari kvöldsins. Erindi hennar heitir ,,Karnival og búningar“ og ræðir hún kjötkveðjuhátíðir og alls kyns furður sem þeim tengjast. Sigurþór Heimisson (Sóri), leikari með meiru leikles valda kafla úr bókmenntum sem lýsa hömlulausu áti. Hann grípur niður í frásögn hins víðsiglda Jörundar Hundadagakonungs af veisluhöldum á Ísland og les upp úr Hundrað ára Einsemd þar sem G. G. Márquez lýsir kappáti á mergjaðan hátt. Að vanda hefst samkoman inni í kirkju þar sem Steingrímur Þórhallsson leikur og kynnir tónlist sem hæfir efninu. Félagar úr Kór Neskirkju syngja. Sr. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir kynnir. Boðið er upp á kjarngóðar veitingar og drykkjarföng gegn frjálsum framlögum.