Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn,
Drottinn, heyr þú raust mína,
lát eyru þín hlusta á grátbeiðni mína.
(130. Davíðssálmur)

Í júlí 1943 dundu sprengjur Breta og Bandaríkjamanna á Hamborg. Úr varð eitt meista eldhaf seinni heimsstyrjaldar, nærri 43.000 manns létu lífið, 37.000 særðust, borgin sjálf var nánast lögð í eyði.

Mitt í eldhafinu stóð sautján ára piltur við loftvarnarbyssu og reyndi af veikum mætti að skjóta niður sprengjuvélarnar. Þegar vakt hans lauk fór hann ásamt besta vini sínum og félaga inn í braggann þar sem fleti þeirra voru til að hvílast fram að næstu vakt. Þá nótt féll sprengja á skýlið og vinur hans dó en pilturinn slapp. Mitt í þessum ragnarrökum, í hildarleik stríðs og harmi, fann drengurinn ungi sig yfirgefinn og sleginn. Hann hrópaði upp yfir sig ópið sem hann seinna þekkti aftur þegar hann las orð Jesú á Krossinum: Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?

Þessi ungi piltur, Jürgen Moltmann, varð síðar einn þekktasti guðfræðingur eftirstríðsáranna í Evrópu og þó víðar væri leitað. Mótaður af tilgangsleysi og hörmungum stríðsins fann hann svar í návist þess Guðs sem gengur með þér í þjáningunni og í gegnum það von og tilgang. Guðfræði hans hefur haft mótandi áhrif á þjóðfélagshópa sem staðið hafa í baráttu fyrir réttindum sínum.

Síðastliðið haust var ég svo heppin að hitta Jürgen Moltmann. Hann var orðinn 92ja ára, en ferðaðist ennþá um, hélt fyrirlestra, vildi hitta ungt fólk, talaði um kristni og jafnrétti, gegn einangrunarhyggju og vaxandi þjóðernishyggju.

Það sem vakti sérstaklega athygli mína var að Moltmann var enn að endurmeta hluti, ennþá skapandi í hugsun. Og við brennandi spurningum samtímans, vaxandi þjóðernishyggju og umhverfismálum, lagði hann fyrst áherslu á mennskuna – að vera eða vera ekki manneskja, það er spurningin. Og hann tók dæmi: Það er ekki til flóttamaður, bara manneskja á flótta.

„Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn“. Í uppgjöfinni, í neyðinni fann Moltmann Guð – þann Guð sem heyrir þegar þú kallar. Sem gengur með þeim sem þjást. Og þess vegna tók hann sér stöðu með þeim og boðaði trú á þennan Guð. Og lífsreynsla hans varð honum styrkur til að taka sér ávallt stöðu með þeim sem þjást – sjá þau sem manneskjur en ekki andlitslausan hóp og minna á að þau eru mikilvæg börn Guðs og okkar hlutverk sem samverkamenn Guðs sé að taka okkur stöðu með þeim. Ein manneskja með annarri. Eitt dýrmætt barn Guðs með öðru dýrmætu barni Guðs.

„Að vera eða vera ekki – manneskja“, sagði Bultmann. Það er áskorunin.

(Greinin birtist á vefritinu Netkirkjan í september 2019)