Sunnudaginn 11. ágúst verður messa kl. 11 og opnun sýningarinnar “Regnbogabraut: Falin saga í 1200 ár”.

Í messunni munu félagar úr kór Neskirkju leiða söng við undirleik Rósu Kristínar Baldursdóttur. Prestur er sr. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir. Að venju leggjum við áherslu á að allir eru velkomnir í messuna, ungir sem aldnir. Það verða blöð og litir fyrir yngsta fólkið. Létt hressing á sýningunni eftir messu.

Á sýningunni, sem verður í safnaðarheimilinu, verða ný verk eftir listafólkið Hrafnkel Sigurðsson, Logn Draumland og Viktoríu Guðnadóttur.

Verkin eru unnin útfrá þemum í “Regnbogaþræðinum” sem er hinsegin vegvísir í gegnum aðal sýningu Þjóðminjasafnsins Þjóð verður til.

Verkin takast á við tilvist hinsegin fólks á Íslandi frá því að landið byggðist og til dagsins í dag og byggja á þemum í Regnbogaþræðinum. Verkunum er ætlað að veita innsýn í reynslu og tilfinningar hinsegin fólks gagnvart valdastofnunum sem ala á sektarkennd og skömm hinsegin fólks.