Að vanda er hlaðborðið fjölbreytt á Skammdegisbirtu í Neskirkju. Fyrstur spilar Steingrímur Þórhallsson á orgelið valin verk eftir meistara Bach. Sr. Davíð Þór Jónsson, Vesturbæingur með meiru, flytur aðalerindi dagsins og heitir það, Jesús í Hollywood. Já, við erum að sigla inn í föstuna og hann ræðir hvernig Draumaverksmiðjan túlkar píslarsögu Krists á ýmsum tímum. Við erum föst í föstunni og því fylgir örerindið, Hin hliðin á Hallgrími, þar sem sr. Skúli S. Ólafsson fjallar um ýmsan kveðskap skáldsins. Má þar nefna eins konar sápuóperu sem hann samdi í bundnu máli fyrir sveitunga sína á Suðurnesjum. Félagar úr Kór Neskirkju syngja milli liða og auðvitað gæðum við okkur á föstum krásum og fljótandi að hætti hússins.