Fimmtudaginn 4. október kl. 18 hefst dagskrárröð í Neskirkju sem gengur undir nafninu, Skammdegisbirta. Kvöldið hefst á höfugum Bachtónum sem Steingrímur Þórhallsson töfrar fram úr orgelinu. Steingrímur kynnir tónlistina og tónskáldið. Gestir ganga svo að borðum þar sem matarmikil súpa er borin fram. Eftir skvaldur og skraf ræðir sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir, draumaprestur, um þetta hversdagslega og dularfulla fyrirbæri sem draumar okkar eru. Umfjöllun hennar tengist sýningu Siggu Bjargar Sigurðardóttur, Blettur, á torginu og tekur listamaðurinn sjálfur þátt í samtalinu. Gestir leggja fram frjáls framlög sem mæta efniskostnaði.