Þriðjudaginn 4. september kl. 17.00 flytur Jørn Øyrehagen Sunde, prófessor við lagadeild háskólans í Björgvin erindið :Hvernig breyttu „fjórar dætur Guðs“ Íslandi? Magnús lagabætir, Jónsbók og samfélagsbyltingin á 13. öld
Árið 1281 eignuðust Íslendingar sína eigin lögbók, sem kölluðu er Jónsbók. Með lögfestingu hennar má segja að „fjórar dætur Guðs“ hafi lokið vegferð sinni alla leið frá Jerúsalem til Þingvalla. Þessar „fjórar dætur Guðs“ voru: Sannleikur, miskunnsemi, réttæti og friður. Fyrst bregður þeim fyrir í 85. Davíðssálmi og þær er að finna í helgitextum gyðinga, Middrash Rabba. Þær koma inn í kristna hefð í gegnum verk guðfræðinganna Hugh frá st. Victor og Bernard frá Clairvoux. Þórir Guðmundsson, erkibiskup frá Niðarósi færði þær inn í samhengi norræns kirkjuréttar og loks urðu þær hluti af norsku lögbókinni frá 1274 og téðri Jónsbók. Magnús lagabætir hafði notið kennslu fransiskanamunka í Björgvin og hann vísaði í þessar „fjórar dætur Guðs“ til að sýna fram á að löggjöf hans væri í samræmi við vilja Guðs. Þær höfðu því varanleg áhrif á norskan og íslenskan rétt.
Jørn Øyrehagen Sunde (1972) varði doktorsritgerð sína árið 2007 og tók á því sama ári við prófessorsstöðu í réttarsögu við lagadeild háskólans í Björgvin. Hann hefur, frá árinu 2006 leitt rannsóknir á vegum Rosendalsafnsins. Á árunum 2008-10 gegndi hann prófessorsstöðu við miðstöð miðaldarannsókna í Björgvin. Frá árinu 2010 hefur Sunde leitt rannsóknarhóp á sviði réttarhefða. Frá árinu 2014 hefur hann verið í forystu fyrir rannsóknarverkefni er lýtur að löggjöf og stjórnsýslu á miðöldum og er kennt við lögbók Magnúsar lagabætis frá 1274. Sunde hefur ritað og ritstýrt átta bókum og birt yfir 100 fræðigreinar. Loks má geta þess að hann er tíður gestur í norskum fjölmiðlum.