Á boðunardegi Maríu, sunndudaginn 25. marrs kl. 17 mun Gjörningaklúbburinn flytja gjörninginn Aqua María á Torginu í Neskirkju, þeim til aðstoðar verður kvennakórinn Hrynjandi. Gjörningaklúbburinn lýsir kveikjunni að gjörningnum á eftirfarandi hátt:
„Skyndilega varð allt bjart á vinnustofunni, hún fylltist af ljósi og það tók að hellirigna þannig að litfagur og stór regnbogi myndaðist. Aqua María birtist okkur Gjörningaklúbbskonum og óskaði eftir samstarfi og aðstoð við að fá fólk til þess að stilla inn á tíðni vatnsins líkt og það hefur að undanförnu stillt inn á byltingaraddir kvenna”
Gjörningaklúbburinn var stofnaður 1996 af myndlistarkonunum, Eirúnu Sigurðardóttur, Jóní Jónsdóttur og Sigrúnu Hrólfsdóttur en sú síðastnefnda hefur verið í starfsleyfi frá 2016. Dóra ísleifsdóttir var hluti af hópnum frá 1996-2001. Undanfarin 22. ár hefur Gjörningakúbburinn unnið saman að gerð myndlistar og unnið í alla þá miðla sem þjóna hugmyndum þeirra hverju sinni. List Gjörningaklúbbsins og hugmyndir fjalla oft um pólitík og félagsleg málefni með feminískum áherslum með glettni og hressandi einlægni. Gjörningaklúbburinn á að baki fjölda einka og samsýninga í söfnum og galleríum um allan heim auk þess að hafa flutt gjörninga víða í stórum og smáum sniðum.