Á aðalfundi Nessóknar, sunnudaginn 14. maí s.l. urðu þau tímamót að Droplaug Guðnadóttir lét af formennsku í sóknarnefnd og dró sig um leið út úr nefndinni. Droplaug gekk til liðs við okkur fyrir fimmtán árum og er óhætt að segja að á þeim tíma hafi hún verið ómetanleg í störfum sínum. Droplaug hefur sinnt leiðtogahlutverki sínu af festu og öryggi, ráðagóð, skelegg og mikil liðsmanneskja. Hún er þaulreynd á sviði félagsstarfa og stjórnunar og höfum við notið góðs af þekkingu hennar og færni á því sviði. Þá fer það ekki á milli mála hversu einlæg hún er í þjónustu sinni við kirkjuna og hve annt henni er um það þetta samfélag. Droplaug hefur sinnt meðhjálp við helgihald í Neskirkju auk margvíslegrar annarrar sjálfboðinnar þjónustu. Gleðin sem einkennir störf hennar og kærleikurinn sem hún ber til Neskirkju er að sönnu smitandi og mun halda áfram að verða okkur öllum innblástur á komandi tímum.
Svo ritar postulinn: ,,Komið til hans, hins lifanda steins, sem menn höfnuðu en er í augum Guðs útvalinn og dýrmætur. Látið sjálf uppbyggjast sem lifandi steinar í andlegt hús til heilags prestsdóms til að bera fram andlegar fórnir fyrir Jesú Krist, Guði þóknanlegar.“ (1Pét 2.4-5).
Við þökkum Droplaug innilega fyrir fyrir allt það sem hún hefur gert fyrir sóknina sína og óskum henni Guðs blessunar.