Námskeið um tengsl matar og trúar í Neskirkju verður haldið á fimmtudagskvöldum , 23. mars – 13. apríl og hefst kl. 20.00. Fasta, matarframleiðsla, sanngjörn skipti, matarnýting, matarsóun, mataruppskriftir verða á dagskrá.

Sigurlín Ívarsdóttir, heilsukokkur og prestur,fjallar um muninn á föstu og megrun og trúarhugmyndir í matar-og megrunartísku. Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar, greinir frá því hvernig maturinn, ræktun og nýting, er hluti af kennslu þeirra til að styrkja konur hér á landi og bæta framtíð þeirra.Kristín Ólafsdóttir, upplýsingafulltrúi Hjálparstarfsins, segir frá þeim sem búa við aðstæður þar sem uppskerubrestur eða veikindi þýða hungur og örbyrgð og hvernig má hjálpa.

Boðið verður upp á hressingu og uppskriftum safnað, hollum, ódýrum og sniðugum og á skírdag, kl. 18, verður pálínuboð. Sr. Steinunn A. Björnsdóttir talar um matarsamfélagið og altarisborðið. Námskeiðinu lýkur með altarisgöngu í kirkjunni á skírdagskvöld.

Umsjón hafa sr. Steinunn A. Björnsdóttir, sr. Sigurlín Ívarsdóttir og Svanhildur Sigurðardóttir.

Námskeiðið er ókeypis en vegna veitinga er hvatt til skráningar á steinunn@neskirkja.is.