Jólatónleikar Kórs Neskirkju verða sunnudaginn 4. desember kl. 17.00.Drengjakór Reykjavíkur verður sérstakur gestur á tónleikunum. Einsöngur er í höndum Hallveigar Rúnarsdóttur og orgelleikari er Björn Steinar Sólbergsson. Stjórnandi tónleikanna er Steingrímur Þórhallsson organisti og stjórnandi Kórs Neskirkju og Drengjakórs Reykjavíkur. Á tónleikunum flytur Kór Neskirkju tónlist tengda jólum, úr ýmsum áttum, allt frá þekktum jólasálmum eins og „Nóttin var sú ágæt ein“ yfir í verkin „Glory to the Christs Child“ og „Christmas Day“ eftir ensku tónskáldin Alan Bullard og Gustav Holst. Á tónleikunum verða ennfremur flutt tvö verk við textann „O Magnum Mysterium“. Spænska tónskáldið Tomás Luis de Victoria er höfundur annars verksins en hitt er nýtt og úr smiðju Steingríms Þórhallssonar tónskálds og stjórnanda kórsins og verður frumflutt á tónleikunum. Að afloknum tónleikum býður kórinn upp á hressingu í safnaðarheimilinu.

Aðgangseyrir er kr. 2.000 og eru miðar seldir við inngang.