Neskirkja efnir til þriggja fyrirlestra um barokkið næstu þriðjudagskvöld kl. 19.00. Tilefnið er afmæli siðaskiptanna á næsta ári auk þess sem dagskrá þessi er hugsuð sem ákveðinn upptaktur að sýningu Kristínar Gunnlaugsdóttur, Siðbót, sem opnuð verður 27. nóvember, næstkomandi. Þar vinnur listamaðurinn m.a. með barokkið.

8. nóvember: Skáldin
Margrét Eggertsdóttir, rannsóknarprófessor við Árnastofnun fjallar um skáldskap barokksins. Margrét hefur m.a. sent frá sér bókina, Barokkmeistarinn, um skáldskap Hallgríms Péturssonar og samtímamanna hans.

15. nóvember: Tónlistin
Steingrímur Þórhallsson, organisti við Neskirkju, fjallar um tónskáldin sem kennd eru við barokkið. Kór Neskirkju æfir nú, undir stjórn Steingríms, verkið Judas Maccabeus eftir G.F. Händel sem flutt verður á afmælistónleikum kirkjunnar, í vor.

22. nóvember: Myndlistin
Ólafur Gíslason, listfræðingur, ræðir myndsköpun barokksins. Ólafur hefur um árabil staðið fyrir fræðslu og umfjöllun um myndlist og hefur ritað og þýtt fjölmargar greinar og bókakafla um listfræði og listsöguleg efni.

Skúli S. Ólafsson leiðir dagskrána og ræðir við fyrirlesrana um efnið.