Þau tímamót urðu í vor í 75 ára sögu Neskirkju að sr. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir var ráðin prestur við kirkjuna og er hún þar með fyrsta prestvígða konan sem þar er skipuð til þjónustu. Svo skemmtilega vill til að fyrsta messa sr. Steinunnar við Neskirkju, verður 19. júní,  á sjálfan kvenréttindadaginn. Messan mun bera svip dagsins, bæði í tónlist og tali og spurt verður um þátt trúar í réttindabaráttu hópa sem eiga undir högg að sækja.  Þá verður sjónum beint að konum sem eru flóttamenn og hælisleitendur. Með því svarar Neskirkja ákalli kirknaráðs Evrópu um að kirkjur um alla álfuna fjalli um og veki athygli á hlutskipti flóttafólks í messum 19. júní, daginn fyrir flóttamannadag Sameinuðu þjóðanna. Prestar kirkjunnar þjóna fyrir altari, kór Neskirkju syngur undir stjórn Steingríms Þórhallssonar organista og fulltrúar úr sóknarnefnd lesa ritningarlestra og bænir. Að lokinni messu verður að vanda boðið upp á kaffisopa á Kirkjutorgi.