Miðvikudaginn 1. júní hefst skráning vegna ferminga 2017. Hægt er að hringja í síma 511-1560 eða koma við í Neskirkju við Hagatorg á skrifstofutíma milli klukkan 10 og 15. Mögulegt er að taka frá fermingardag um leið og barn er skráð í fræðsluna.

Fermt verður laugardaginn 8. apríl (fyrir pálmasunnudag) kl. 11.00 og 13.30, annann í páskum 17. apríl kl. 11.00 og sunnudaginn 23. apríl kl. 13.30. Hámarksfjöldi barna í hverri athöfn eru 25.

Fermingarfræðslan í Neskirkju er unnin samkvæmt því markmiði, að fermingarbörnin fái gagnlega kynningu á kristinni trú, dýrmæta reynslu og gott veganesti á þeim tímamótum sem þau standa á. Þar er fléttað saman hefðbundinni fræðslu, leik og upplifun. Stefnumót fermingarbarna við sóknarkirkjuna eiga að vera ánægjuleg, styrkja þau sem einstaklinga og veita þeim jákvæða sýn á lífið og náungann.

Fermingarnámskeið hefst sunnudagskvöldið 14. ágúst 2016 kl. 20.00 með fundi þar sem foreldrar og börn eru boðin velkomin. Kennt verður frá mánudegi 15. ágúst til fimmtudagsins 18. ágúst frá kl. 10.00 – 15.00. Fyrsta hluta námskeiðsins lýkur með messu sunnudaginn 21. ágúst kl. 11 en þá ganga börnin til altaris í fyrsta sinn.

Á námskeiðinu starfa margir fræðarar með ólíkan bakgrunn og reynslu. Kennt verður í litlum hópum, farið í vettvangsferðir, horft á kvikmynd og fleira gert.

Námskeiðið stendur öllum ungmennum í 8. bekk til boða óháð því hvort þau stefni á að fermast að vori eða ekki og hjálpar þeim fremur en hitt við að taka upplýsta ákvörðun í þeim efnum.

Yfir veturinn verða fræðslukvöld fyrir fermingarbörn og fjölskyldur þeirra, helgar ferðalag í Vatnaskóg og fjölbreytt helgihald.

Fermingargjaldið er kr. 25.000,- en innifalið í því er fræðslugjald skv. ákvörðun ráðuneytis, kennslugögn, kyrtlaleiga, matur og drykkur alla námskeiðsdagana, helgarferð í Vatnaskóg og annar kostnaður.

Fermingabæklingur 2017